Hausmynd2018-RM2017
Squeezy Sport Nutrition
Pistlar/Vi­t÷l
Vi­t÷l
Yfirheyrslur
Pistlar Stefßns
Hlaupasumari­ mitt
S÷gur ˙r hlaupum
Frßsagnir hlaupara
Hugrenningar
Pistlar Sigur­ar P.
Frß umsjˇnarmanni
Leit
┴hugavert
Hlaupadagskrß 2020
Skrßningar Ý hlaup
Panta prˇgram
100km hlauparar
FÚlag mara■onhl.
HvÝtt bil 10 ß hŠ­
HvÝtt bil 10 ß hŠ­ - 3
Ăfingadagbˇk - 115x79
HvÝtt bil 5 ß hŠ­ - 1
hlaup.is ß Facebook
HvÝtt bil 5 ß hŠ­ - 3
English
HvÝtt bil 10 ß hŠ­ - 2
Póstur torfi@hlaup.is
Pistlar/Vi­t÷l  >  Vi­t÷l
2.3.2014
Stefßn GÝslason fjallvegahlaupari: B˙inn me­ 34 fjallvegi af 50


Stefán umvafinn náttúrufegurð. 

Oft segja þeir sem sjaldan spretta úr spori að hlaup séu einhæf hreyfing. Hinir sömu ættu að ræða við Stefán Gíslason, hressan hlaupagarp sem er hluti af hinum skemmtilega hlaupahóp Flandra í Borgarnesi. Hætt er við að þeir myndu snögglega skipta um skoðun, ekki síst ef Stefán myndi ákveða að deila með þeim sögum af ævintýrum sínum á fjallvegum landsins undanfarin ár. Stefán er fyrir löngu orðinn landsþekktur og í janúar síðastliðnum hlaut hann þriðja sæti í vali hlaup.is á langhlaupara ársins 2013. Fyrir utan fjallvegahlaupin þá bætti Stefán sinn besta tíma í maraþoni þegar hann hljóp Reykjavíkurmaraþonið á 3:08:19. Þess má geta að Stefán er 56 ára gamall.

Þegar Stefán varð fimmtugur vorið 2007 ákvað hann að gera hlaupin að lífstíll. Ekki að hann hafi verið ókunnur hlaupunum áður en hann breytti áherslunum svo um munaði. Hann einsetti sér að hlaupa yfir 50 fjallavegi á næstu tíu árum. Skilyrðin sem hann setti voru að viðkomandi fjallvegir væru a.m.k. 9 km að lengd, fari upp í minnst 160 m hæð yfir sjó og tengi saman tvö byggðarlög eða áhugaverða staði. Þá mega vegirnir gjarnan vera fornar göngu- eða reiðleiðir eða fáfarnir bílavegir. Síðan Stefán setti sér markmiðið hefur hann hlaupið 34 fjallvegi sem eru 9-40 km langir. Forvitnast má nánar um verkefnið á heimasíðu Stefáns, fjallaveghlaup.is. Þar má finna lýsingu á hverri leið, ferðasögur, myndir úr ferðum og fleira. Stefán féllst á að veita lesendum nánari innsýn inn í þetta stóra og óvenjulega verkefni í viðtalið við hlaup.is.

-Menn setja sér ýmis markmið á tímamótum, þú varðst fimmtugur og settir stefnuna á 50 fjallvegi. Af hverju?
Mig langaði bara að gera eitthvað nýtt og skemmtilegt. Hlaupin höfðu alltaf verið hluti af mér og ég var meðvitaður um það að upp úr fimmtugu hlyti ég að þurfa að leggja örlítið meira á mig en áður til að lengja endingartíma líkama og sálar. Mér finnst líka gott að vera úti og hef mikla trú á mikilvægi útivistar og náttúrupplifunar fyrir eigið heilbrigði. Hugmyndin hafði verið að þróast með mér árin á undan, og það skipti líka miklu máli að konan mín, Björk Jóhannsdóttir, hvatti mig á alla lund. Upphaflega hugsaði ég þetta sem útivist og einveru, en hún fékk mig til að nýta þetta líka til þess að gleðjast með öðru fólki. Þess vegna ákvað ég strax í upphafi að kynna hlaupin fyrir öðrum og bjóða fólki með.

-Varstu vanur fjallvegahlaupari áður en þú byrjaðir, hafa hlaupin verið eitthvað í líkingu við það sem þú bjóst við?
Ég leit svo sem ekki á mig sem vanan fjallvegahlaupara, en ég er alinn upp í ósléttu landi og þokkalega fótviss eftir áratugareynslu sem smali. Ég hafði því nokkuð góða hugmynd um hvað ég væri að fara út í. Í grófum dráttum hefur þetta verið í líkingu við það sem ég bjóst við, nema hvað ég hafði ekki gert mér neina grein fyrir félagslegu hliðinni. Í þessum ferðum hef ég kynnst góðu fólki á einhvern allt annan og dýpri hátt en gerist á ráðstefnum eða í reykfylltum bakherbergjum.

-Þú býður fólki að hlaupa með þér, hafa margir slegist í hópinn?
Þegar allt er talið hafa 42 hlauparar tekið þátt í þessu með mér það sem af er. Stundum er ég einn á ferð, en oft höfum við verið 3-4 saman. Flest vorum við á Ólafsskarði vorið 2012, eitthvað um 15 manns. Sumir hafa farið margar ferðir með mér en aðrir færri eins og gengur.

Arnfríður Kjartansdóttir á Akureyri er efst á þessum lista. Hún er búin að fylgja mér yfir 13 heiðar. Nokkrir aðrir fylgja fast á eftir með u.þ.b. 10 heiðar. Ég held auðvitað nákvæma skrá um þetta allt saman í Excel, eins og reyndar um flest annað sem hlaupum viðkemur.

 
 Stefán th. og Birkir Stefánsson inn af botni Reykjafjarðar, við Breiðdalsá.

 -Er skemmtilegra að hlaupa í hóp, hver er munurinn?
Jú, það er að flestu leyti skemmtilegra að hafa félagsskap á þessum ferðum. Þetta er líklega besta leið sem hugsast getur til að kynnast því besta í fólki. Það er líka ótrúlega gefandi að upplifa bestu og líka erfiðustu augnablikin með öðrum, og svo er samvinna líka ómetanleg til að leysa þau vandamál sem upp koma á leiðinni. En það er líka gaman að hlaupa einn. Því má líkja við einhvers konar hugleiðslu, en það skilur einhvern veginn minna eftir sig til langs tíma.

-Nú hópast margir út í heim og taka þátt í maraþonum í stórborgum, er það eitthvað sem þú hefur gert? Er hægt að bera þá upplifun saman við að hlaupa í íslenskri náttúru?
Það má kannski orða það þannig að ég hafi í auknum mæli leiðst út í að stunda götuhlaup meðfram fjallvegahlaupunum. Er búinn að bæta mig töluvert í götuhlaupunum síðustu árin, en um þetta hafði ég svo sem engin sérstök áform á fimmtugsafmælinu. Ég hef samt lítið sótt út fyrir landsteinana hvað þetta varðar. Hljóp þó maraþon í Róm 2008 og svo í París síðasta vor. Þessar ferðir voru alveg stórkostlegar, hvor á sinn hátt. En það er eiginlega útilokað að bera þetta saman við að hlaupa í íslenskri náttúru. Maður þarf að vera í góðu andlegu og líkamlegu formi til að njóta langra hlaupa, hvort sem er á eyðilegri heiði eða á götusteinum í erlendri stórborg. Og hvort tveggja er stór upplifun sem léttir manni lífið alla hina dagana. En þetta er að öðru leyti gjörólíkt.


Ægifagurt landslag á leið niður af Neshálsi sem er á milli Húsavíkur og Loðmundarfjarðar. 

-Hefur þú ekki lent í ýmsu á þessu brölti upp á fjöllum, viltu deila góðri sögu með okkur?
Þetta hefur allt gengið stórslysalaust. En stundum hef ég þó lent í hrakningum, ýmist einn eða með öðrum. Ofast hefur það verið vegna þess að veðrið snerist gegn mér á leiðinni, eða með öðrum orðum vegna þess að ég vanmat veðrið. Mesta bröltið átti sér þó stað í góðu veðri um Jónsmessuleytið 2008 á leið um Rauðskörð milli Ólafsfjarðar og Héðinsfjarðar.

Þar var ég einn á ferð og þekkti ekki leiðina. Leiðin liggur upp snarbratta skriðu Ólafsfjarðarmegin og var ómerkt. Held að búið sé að merkja hana núna. Ég var með gönguleiðakort og hafði fengið ágætar upplýsingar hjá kunnugu fólki, þar sem m.a. hafði komið fram að uppi í hlíðinni væri gulmálaður steinn sem vísaði leiðina.

Ég sá steininn og vissi að einhvers staðar ofarlega í skriðunni ætti að beygja til hægri til að komast upp í skarðið sem leiðin liggur um. Fannst liggja beint við að ég ætti að beygja þegar ég kæmi að steininum. Það reyndist vera mikill misskilningur. Ég hafði reyndar verið varaður við því að beygja of snemma, því að þá myndi ég lenda í klettum. Það var einmitt það sem gerðist. Ég beygði hjá steininum og lenti í miklum ógöngum. Var í hálftíma að basla þarna í klettunum, en tókst loks að fikra mig ofar í skriðuna. Komst svo upp í skarðið og eftir það gekk allt vel.

En til að gera þetta enn verra hafði ég tilgreint hvenær ég yrði í allra síðasta lagi kominn á leiðarenda í Siglufirði. Eftir baslið þarna í skriðunni var nánast útilokað að sú tímasetning stæðist. Þetta var fyrir tíma Héðinsfjarðarganga, og auðvitað var ekkert farsímasamband á þessum slóðum. Björk konan mín beið eftir mér á Siglufirði, og ég vissi að mikil seinkun myndi leiða af sér miklar áhyggjur. Og ekki bætti úr skák að þetta var nokkrum dögum eftir að ísbjörn sást á Þverárfjalli, ekki svo ýkja löngu vestar á Norðurlandi. En þetta fór allt vel. Ég náði símasambandi við byggð úr Hólsskarði milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar og gat andað rólega síðasta spölinn.

 
 Öfgarnar mæta Stefáni á Reindalsheiði.

-Er það fyrir hvern sem er að hlaupa þessa fjallvegi? Er ekki allt annað að hlaupa fjallvegi en að fara á venjulega hlaupaæfingu í bænum?
Jú, þetta er töluvert annað en venjuleg hlaupaæfing í bænum. Ég fer yfirleitt ekki hratt yfir, en það ræðst svolítið af því hverjir eru með mér. Þarna er engin keppni í gangi og maður tekur bara eins langan tíma í hverja ferð og mann langar til. Samt eru lengstu ferðirnar það langar að þær kalla á töluvert úthald. Maður skokkar ekki 30-40 km á ósléttu landi alveg upp úr þurru.

Styttri leiðirnar eru fyrir alla, eða því sem næst, en þetta reynir allt öðruvísi á fæturna en malbikshlaup. Það er t.d. auðvelt að misstíga sig illa ef ökklarnir eru ekki nógu sterkir. Sumir eru líka óöruggir í mjög grýttu eða ósléttu undirlagi, sérstaklega niður í móti. 

-Hvað á hinn venjulegi hlaupari að hafa í huga ef hann hefur áhuga á að hlaupa á fjallvegum, þ.e. í hversu góðu formi þarf viðkomandi að vera og hvernig á að búa sig?
Maður þarf fyrst og fremst að bera virðingu fyrir náttúruöflunum, kynna sér leiðina vel fyrirfram, rýna í veðurspána og láta aðra vita af ferðum sínum. Hlaupaformið er kannski ekkert aðalatriði, en það er þó miklu skemmtilegra að vera vel á sig kominn.

Nauðsynlegt er að þekkja eigin líkama nógu vel til að vita að fæturnir þoli góðan skammt af ójöfnum og öðru mótlæti. Búnaðurinn er val hvers og eins. Ég er frekar mikill naumhyggjumaður hvað þetta varðar og hef stundum verið heldur lítið klæddur.


Stefán og Birkir Stefánsson á leið upp Laxárdalsheiði.

Í óvæntu slagviðri er kuldinn fljótur að ná yfirhöndinni ef maður lendir í skakkaföllum og getur ekki haldið áfram að hlaupa. Skórnir eru mikilvægir. Ég er alltaf í utanvegahlaupaskóm með góðu gripi og án rakavarnar á borð við Goretex. Goretexskór eru góðir í rekju, en glataðir í vatnsföllum, því að ef þeir fyllast af vatni fer það ekki svo glatt út aftur. Og bómullarföt eru á bannlista hjá mér, sérstaklega sokkar. Vökvi og næring skipta svo auðvitað miklu máli, rétt eins og í öðrum hlaupum.

-Hverjar eru skemmtilegustu og fallegustu leiðirnar sem þú hefur hlaupið?
Ég er búinn að hlaupa 34 leiðir, sem er ekki alveg auðvelt að gera upp á milli. Snjáfjallahringurinn sem ég hljóp sumarið 2012 er þó alla vega mjög ofarlega á listanum. Á þessum hring eru þrír fjallvegir, Snæfjallaheiði, Staðarheiði og Dalsheiði, samtals tæpir 60 km.

Snæfjallaheiðin er sýnu tilkomumest og eftir að hafa lesið þríleik Jóns Kalmans Stefánssonar, sem gerist á þessu svæði, fékk ferðalagið enn dýpri merkingu. Það er eitthvað alveg sérstakt við þetta svæði, sem ekki er auðvelt að lýsa í fáum orðum. Svo er ég líka búinn að hlaupa nokkra einstaklega skemmtilega og fallega fjallvegi á Austurlandi.


Stefán ásamt hlaupafélögum stilla sér upp við Hvítserk.

Þar detta mér fyrst í hug Stuðlaheiði milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar og Reindalsheiði milli Fáskrúðsfjarðar og Breiðdals. Svo eru Víknaslóðir líka sérstaklega eftirminnilegar. Þar hljóp ég yfir 4 heiðar á tveimur dögum sumarið 2010 í góðra vina hópi.

-Eru fjallvegahlaup eitthvað sem við Íslendingar gætum gert meira úr og verið duglegri að markaðssetja t.d. fyrir útlendinga
Jú, örugglega. Þarna liggja ótrúlega fjölbreyttir möguleikar. En eflaust er vandasamt að gera þetta þannig að upplifunin haldist þó að maður borgi fyrir hana. Það hefur eitthvað verið nefnt við mig hvort ég vilji ekki markaðsvæða fjallvegahlaupin mín eitthvað. En það ætla ég ekki að gera, þetta er frístundagamanið mitt en ekki vinnan. Þarna nýt ég frelsis sem ég hef engan áhuga á að afsala mér. En mér finnst sjálfsagt að aðrir búi sér til viðskiptatækifæri úr hlaupum af þessu tagi. Ég get jafnvel gefið góð ráð þar að lútandi.

-Þú ert búinn að hlaupa 34 fjallvegi núna síðan 2007, ertu á áætlun?
Ég er einum fjallvegi á eftir áætlun. Þetta eiga að verða 50 fjallvegir á tíu árum, þ.e.a.s. fimm fjallvegir á ári að meðaltali. Núna eru búin sjö sumur, þannig að ég ætti að vera búinn með 35 fjallvegi. Ætli ég fari ekki sex næsta sumar til að leiðrétta hallann.

-Á heimasíðunni þinni eru 66 fjallvegir komnir á lista, er erfitt að halda í sér? Muntu ekki halda áfram að þræða fjallvegi þó þú náir markmiðinu?
Það er svo sem ekkert farið að reyna á þetta ennþá. En ég hætti þessu varla þótt ég verði sextugur. Kannski bý ég mér til eitthvert nýtt verkefni. Það á bara eftir að koma í ljós.

 

Til baka
 
 
Athugasemdir
 
 
Settu inn athugasemd:

 
Sportv÷rur 2XU Jan 2020
HvÝtt bil 5 ß hŠ­ - 3
 
© Allur rÚttur ßskilinn. Birting ß ■essu efni ß ÷­rum mi­lum er ˇleyfileg nema me­ leyfi hlaup.is