Hausmynd2018-RM2017
Squeezy Sport Nutrition
Pistlar/Vi­t÷l
Vi­t÷l
Yfirheyrslur
Pistlar Stefßns
Hlaupasumari­ mitt
S÷gur ˙r hlaupum
Frßsagnir hlaupara
Hugrenningar
Pistlar Sigur­ar P.
Frß umsjˇnarmanni
Leit
┴hugavert
Hlaupadagskrß 2020
Skrßningar Ý hlaup
Panta prˇgram
100km hlauparar
FÚlag mara■onhl.
HvÝtt bil 10 ß hŠ­
HvÝtt bil 10 ß hŠ­ - 3
Ăfingadagbˇk - 115x79
HvÝtt bil 5 ß hŠ­ - 1
hlaup.is ß Facebook
HvÝtt bil 5 ß hŠ­ - 3
English
HvÝtt bil 10 ß hŠ­ - 2
Póstur torfi@hlaup.is
Pistlar/Vi­t÷l  >  S÷gur ˙r hlaupum
29.7.2017
Laugavegspistill eftir Axel Einar Gu­nason

Axel Einar Guðnason tók þátt í Laugavegshlaupinu í ár. Hann skrifaði tvískiptan pistil um þátttöku sína sem hlaup.is fékk leyfi til að birta. Fyrri pistillinn fjallar um undirbúning og markmið en sá seinni um hlaupið sjálft. Gjörið svo vel.

Fyrri pistill: Laugavegur á laugardag - varúð, langlokuhlaupapistill

Í nóvember kom Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir frænka í kaffi og spjall til mín, þá var ég í einhverri tilvistarkreppu með hlaupin mín og vantaði eitthvað nýtt markmið með þessu brölti. Ég á erfitt með að halda mér við efnið nema ég sé að æfa fyrir ákveðið hlaup og það kom til mín í þessu spjalli. Hún sannfærði mig um að skottast með sér Laugaveginn Ultra Maraþon sem er 55 km hlaup frá Landmannalaugum niður í Þórsmörk. Það er hálf geggjað að láta sér detta til hugar að hlaupa þessa leið á nokkrum klukkutímum enda er þetta tveggja daga ganga fyrir flest venjulegt fólk. En þegar við ræddum þetta betur vorum við sammála að það væri vel hægt að koma sér í nógu gott form enda höfðum við átta mánuði til að undirbúa okkur. Það sem virtist heil eilífð þá er sem sagt að bresta á - hlaupið verður ræst á laugardaginn kl 9.

Undirbúningurinn hefur verið upp og ofan, ég steig mikið gæfuspor í október þegar ég gekk í Hlaupahóp FH en fram að því hafði ég alltaf verið einn í hlaupahópnum ´O, sole mio´ - sem hefur nú hætt starfsemi í bili.

Gekk í Hlaupahóp FH
Það eru ótvíræðir kostir við að vera í hlaupahópi en það tók smá tíma að aðlagast eftir að hafa hlaupið einn í rúmlega sex ár. Það er ómetanlegt að vera með góða þjálfara og reynda hlaupafélaga sem hægt er að leita ráða hjá og ég hef óspart nýtt mér það í undirbúningnum.

Þar sem mér fannst 8 mánuðir full langur tími fram að stóra markmiðinu ákvað ég að „toppa" einu sinni áður til að hafa eitthvað milli-markmið til að stefna að. Vormaraþon í apríl varð fyrir valinu enda fyrsta langa hlaup ársins á frábærri braut og þar stefndi ég á að bæta tímann minn í hálfu maraþoni sem tókst að sjálfsögðu. Ennfremur tók ég þátt í styttri götuhlaupum yfir veturinn og hljóp loksins 10 km undir 45 mínútum en náði ekki að bæta 5 km tímann minn frá 2015, það bíður betri tíma. Frá því að Laugavegs ákvörðunin var tekin hafa alls verið hlaupnir um 1360 km sem er einn hringvegur, frá Hafnarfirði til Hafnarfjarðar. Það hljómar kannski eins og einhver ósköp en í raun heldur stutt, að jafnaði um 39 km á viku og hefði gjarnan mátt vera svolítið meira.

Eftir Vormaraþonið hófst hinn eiginlegi undirbúningur fyrir Laugaveginn með tilheyrandi utanvegahlaupum en það byrjaði ekki gæfulega. Í maí fór fjölskyldan í tveggja vikna ferð til Florida þar sem hitinn setti strik í reikninginn og í kappinu sem hljóp í mig við heimkomuna datt ég á harðaspretti niður Esjuna og brákaði rifbein. Þetta hnjask stoppaði mig í þrjár vikur á slæmum tíma í undirbúningnum, það var ekkert hægt að hlaupa vegna sársauka. Upp úr hvítasunnu velti ég því alvarlega fyrir mér að fresta einfaldlega Laugaveginum um eitt ár en sem betur fer jafnaði ég mig fljótlega eftir það og ekki seinna vænna. Á síðustu fimm vikum hef ég náð að komast aftur í gírinn og hlaupa 52-77 km á viku og engin sérstakur vandræðagangur verið á mér. Reyndar gleymdi ég mér í gleðinni í Snæfellsjökulshlaupinu 1. júlí og hljóp líklega of hratt, alltof mikil orka fór í hlaupið aðeins tveimur vikum fyrir Laugaveginn. Ég fann fyrir þreytu og orkuleysi eftir það en nú er komið að hvíld þessa síðustu daga fyrir keppni og ég verð vonandi fullur af orku og í besta formi lífsins á laugardaginn, fall er vonandi fararheill.

Keppnishlaup er ekki annað en uppskeruhátíð æfinganna
Varðandi markmið laugardagsins hefur ýmislegt farið í gegnum hugann á undanförnum mánuðum og staðan er svona í dag: Stærsta markmiðið verður alltaf að komast heill í mark og njóta eins og hægt er, þetta á að vera skemmtilegt. Laugavegurinn er einhver fallegasta gönguleið landsins og hlaupið snýst því að mestu leyti um að njóta, njóta, njóta. Að stefna á ákveðinn lokatíma í fyrsta Laugavegshlaupinu mínu er heldur ekki einfalt enda aðeins hlaupið tvö maraþon um ævina og lenti í vandræðum í þeim báðum, skall á veggnum fræga í fyrra hlaupinu og fékk krampa undir lokin í því seinna - undanskil Disney maraþonið sem ég mætti ári of seint í, þar sem ég gekk/skokkaði rólega allan tímann og fór í einn rússíbana á miðri leið, það er önnur saga. Reyndar var mikill hiti og raki í þessum hlaupum sem verður væntanlega ekkert sérstakt vandamál á laugardaginn.

En Laugavegurinn er rífleg Esjuganga og heilt maraþon á eftir, það að fara þetta í fyrsta sinn verður auðvitað algjör óvissuferð. Miðað við undirbúninginn og alltof mörg skróp á styrktaræfingar Kristrúnar frænku - systur Ragnheiðar, er eins gott að stilla öllum væntingum í hóf, tel það vænlegra en að vera of öruggur með mig. Keppnishlaup er nefnilega ekkert annað en uppskeruhátíð æfinganna, hef lítið getað stólað á dagsform eða heppni eins og t.d. í snókernum í gamla daga þegar ég gat mætt skelþunnur í mót alltof snemma á sunnudagsmorgni og rúllað andstæðingum mínum upp. En hvað sem öllum lokatíma líður er auðvitað frábært að líða vel í eigin skinni eftir öll þessi hlaup, sixpakkinn og fína formið er komið til að vera. En ef allt gengur eins og best verður á kosið, væri gaman að komast í endamarkið á svipuðum tíma og Þorbjörg Ósk Pétursdóttir, vinkona mín í FH sem hljóp í fyrra á rúmlega 6 klst en lokatími undir 7 klst myndi teljast vel viðunandi miðað við aldur og fyrri störf. Veðurguðirnir virðast ætla að vera með okkur í liði en spár gera ráð fyrir örlitlum vindi og fáeinum dropum úr lofti, hvorugt ætti að tefja að ráði. Aðalatriðið verður hins vegar að hugsa sem minnst um tímann heldur að skila sér í markið, leggja í reynslubankann og mæta svolítið hokinn af reynslu næst. En þetta kemur allt í ljós síðdegis á laugardaginn.

Ef einhver hefur virkilega náð að klóra sig í gegnum allan þennan texta og haft smá gagn eða gaman að, þætti mér vænt um að fá að heyra um það í kommenti. Kannski ég snúi mér meira að ritstörfum í framhaldinu

Seinni pistill: Laugavegur á laugardag - varúð, langlokupistill

Það var gaman að fá góð viðbrögð við fyrri hluta Laugavegspistilsins og frábært að sjá hvatningarorð og hlýjar hugsanir frá ykkur. Eftir þau skrif tók við hagnýtur undirbúningur enda að mörgu að huga síðustu dagana fyrir hlaup. Það voru aðeins 19 km hlaup þessa vikuna og allt í rólegri kantinum og því meiri tími til að leysa ýmis mál og það fór að skýrast í höfðinu á mér hvernig ég ætti að vera útbúinn. Ég ákvað að sleppa alfarið að vera með neyðartösku við Bláfjallakvíslina, hef aldrei þurft að vera í fataskiptum í miðju hlaupi og það væri varla að fara að byrja núna. Ég tók tíu gel með mér og fjögur Cliff orkustykki sem ég hef tekið með mér í massavís frá Flórída. Ég hef verið að finna til svengdar í löngu hlaupunum mínum og þá hafa þau komið sér vel.


Axel og Ragnheiður með bros á vör.

Talandi um mat, það er stórmerkilegt að líkaminn fer sjálfvirkt að búa sig undir komandi átök, undirmeðvitundin tekur völdin og reynir að koma líkamanum í eins gott stand og mögulegt er. Ég var sísvangur í vikunni og borðaði heil ósköp, líkaminn var greinilega að safna sér upp góðum orkuforða. Það var ekkert sérstakt matarprógramm í gangi, heldur sitt mikið af hverju en allt í heldur kolvetnaríkari kantinum án þess að vera í neinum öfgum. Ég hef stundum karbólódað fyrir hlaup með sérstöku sykurjukki en ákvað að sleppa því í þetta sinn.

„Er þetta ekki bara sparaksturskeppni?"
Svo var það hlaupataktíkin, hver er besta áætlunin til að hlaupa 55 km á sem skemmstum tíma? Er þetta ekki bara sparaksturskeppni, að komast á leiðarenda áður en farartækið verður eldsneytislaust? Þó markmiðið sé að njóta leiðarinnar er ekki hægt að loka augunum fyrir því að maður verður að gera sitt allra besta. Helstu áhyggjurnar hafa verið að komast alla leið í markið án þess að bugast á leiðinni, enda margt sem getur komið upp á.

En það þýðir lítið að hugsa of mikið um það sem getur klikkað, tímanum er betur varið í að koma með skynsama og auðmjúka nálgun á verkefnið - í stuttu málið að byrja rólega og sjá svo til. Ég hafði látið mig dreyma um lokatíma í kringum 6:10 en þegar litið er yfir úrslitin úr hlaupinu 2016 má sjá marga öflugri hlaupara en mig með lakari tíma en það.

En þetta eru auðvitað bjartsýnustu draumar en annars var ég búinn að gefa það út að lokatími undir 7 klst væri vel viðunandi. Lokatími upp á 6:10 samsvarar hraða upp á 6:44 mín/km sem er rólegur skokk-hraði, þegar ég fletti upp í excelinum mínum (þar sem ég hef skráð allar hlaupaæfingar mínar síðustu 4 ár) finn ég enga hlaupaæfingu á svo hægum hraða.

Vandamálið er hins vegar hin svakalega vegalengd og endalausar brekkur á Laugaveginum, mér skilst að hækkunin á leiðinni sé nálægt 1900 metrum og það fer mikill tími og orka í það. Mér reiknaðist til að fyrir utan allar brekkurnar sem yrðu gengnar og tækju bara sinn tíma, væri best að stilla raunverulegan hlaupahraða á jafnsléttu og niður í móti, rétt undir 6 mín/km. Ég hef hlaupið maraþon á 5:31 mín/km svo þetta væri kannski ekki svo galið. Þetta er allt saman gott og blessað, best er að hafa alla þessa vitneskju í kollinum en hlusta svo bara á líkamann og leyfa honum að ráða ferðinni, þegar hann verður búinn að átta sig á aðstæðum mun hann vonandi sjá til þess að koma sér í markið.

Mikil orka í fyrsta spölinn
Hlaupadagurinn rann upp alltof snemma, það er fótferðatími í kringum 3:30 sem er þó betur sloppið en fyrir vini mína í Borgarnesi og Keflavík. Rútuferðirnar eru engir sérstakir hápunktar dagsins en við komumst þó á rásmarkið á réttum tíma, og þvílík fegurð inni í Landmannalaugum. Það leit út fyrir frábæran hlaupadag, íslenski fáninn bærðist ekki á fánastönginni og allir í sólskinsskapi. Þó það sé örugglega ekki gaman að vera í þeirri rútu sem sprakk á, þá tafðist ræsingin á hlaupinu um korter sem mér fannst bara góðar fréttir. Gaman að hafa enn meiri tíma með öllu fólkinu og upplifa spennuna og eftirvæntinguna sem lá í loftinu. 

Í hlaupahólfinu, rétt fyrir ræsingu, fínpússaði ég hina einföldu hlaupataktík. Ragnheiður frænka ætlaði að elta Bryndísi Maríu Davíðsdóttur og ég ákvað að reyna að halda í við Ragnheiði en eyða samt ekki of mikilli orku í einhver hraðaupphlaup upp í Hrafntinnusker. Þessi ágæta taktík dugði ágætlega fyrstu þrjá, fjóra kílómetrana, eftir það sá ég þær stöllur ekki aftur fyrr en í endamarkinu. Annað hvort voru þær að fara alltof hratt af stað eða ég of hægt. Það glumdi stanslaust í kollinum á mér að fara hægt þennan fyrsta áfanga þar sem þetta er erfiðasti kaflinn á leiðinni. Ég gekk því upp flestar brekkurnar og hljóp rólega á jafnsléttu, það átti alls ekki að sprengja sig. Þó ég hafi vitað af hinni miklu hækkun upp í Hrafntinnusker kom brattinn á sumum brekkunum verulega á óvart og mikil orka fór í þennan fyrsta spöl án þess að ég væri að fara sérstaklega hratt yfir.

Það er eitt að sjá hækkunina á blaði en allt annað mál að vera á staðnum. Ekki lagaðist ástandið þegar ofar dró, þá tók við langur kafli í snjó og enn hægðist á mér. Við drykkjarstöðina á Hrafntinnuskeri var ég búinn að vera tæplega korteri lengur en ég hafði ætlað mér og enn var töluverður snjókafli eftir. Þar rann upp fyrir mér að tímamarkmið upp á 6:10 væri óraunhæft, það var ég sem var of hægur en ekki stúlkurnar að fara of hratt. Ég myndi ekki ná þeim aftur nema mér tækist að ná góðum hlaupakafla eftir að koma niður Jökultungurnar, þar var meiningin að vera svolítið ferskur.

"Eru allir að hlaupa framúr mér?"
Það voru því mikil vonbrigði að koma niður þreyttur og slæptur þó ég hafi reynt að spara mig eftir bestu getu. Kristján Ólafur Guðnason, félagi minn í FH var búinn að ná mér en hann var í rauða ráshópnum og byrjaði því fimm mínútum á eftir mér.

Hann fór fljótlega fram úr og tilfinningin var eins og ALLIR væru að hlaupa fram úr mér og það greip mig svipuð örvænting og í London maraþoninu þegar ég lenti á veggnum eftir hálft hlaup. Hafði ég hreinlega orku til að halda áfram og klára?


Axel með góðum og traustum hlaupafélögum.

Allt í einu fór hlaupið að snúast eingöngu um fyrsta markmiðið af þremur sem ég hafði sett mér, að komast í markið heill á húfi. Hin markmiðin voru að njóta og að komast í mark undir 7 klukkutímum. Ég hafði ekki reiknað með öðru en að ná öllum þessum markmiðum en það var það svo sannarlega ekki sjálfgefið. Ég var allavega ekki að njóta hlaupsins að neinu leyti enda kominn í algjöra sjálfsvorkunn og ég gat alveg gleymt því að ná í markið á skikkanlegum tíma enda var bluetooth græjan að minna mig á, á kílómetersfresti að áætlaður lokatími yrði rúmlega 8 klst - og enn var heilt maraþon eftir.

Það greip mig algjört panik ástand þar sem ekkert annað komst að í kollinum á mér en að komast í mark, ég slökkti því á græjunni góðu og mér fannst að þessi kafli hlyti að vera lágpunktur hlaupsins. Það var því mikill léttir að komast loksins að drykkjarstöðinni við Álftavatn, ég hef líklega verið þar á tíma í kringum 2:55. Þá var ég búinn að vera með smá verk í maganum sem hvarf á einu salerninu. Ég varð svolítið brattari eftir stoppið og ákveðinn í að reyna að njóta lífsins svolítið betur eftir þennan vonbrigðakafla, það versta hlyti að vera afstaðið.

Vinarþel og hressing sem bætir og kætir
En staðan átti enn eftir að versna, sandarnir eftir Bláfjallakvíslina tóku á móti okkur með töluverðum mótvindi, mun meiri en ég átti von á. Aftur datt ég í svartnættið og eftir á að hyggja er svolítið glatað að hlaupa þennan kafla einn. Kristján var kominn töluvert á undan mér og hvarf sjónum. Ég reyndi að hlaupa með næsta hlaupara á undan eða halda í við þá sem fóru fram úr mér en það var einhvern veginn enginn á sama tempói. Það rifjuðust upp varnaðarorð Friðleifs þjálfara sem sagði að það væri bannað að ganga á jafnsléttu en ég réttlætti nokkrar göngurnar á söndunum með því að mótvindurinn jafngildi brekku - því væri í lagi að taka smá hlé frá hlaupunum en aldrei lengi í einu. Þess á milli var skokkað áfram en meðalhraðinn á þessum ágæta hlaupakafla hefur örugglega ekki verið undir 8 mín/km sem er langt frá því sem var lagt upp með.

Eftir langa eyðimerkurgöngu var stórkostlegt að sjá allt í einu niður á drykkjarstöðina við Emstrur þar sem Renuka Chareyre og félagar hennar tóku skælbrosandi á móti mér. Það var akkúrat sem ég þurfti til að koma mér í gang, svolítið vinarþel og hressing. Klukkan sýndi rétt rúmlega 5 klst, sem var klukkutíma lengur en bjartsýnasta markmiðið mitt, en mér var löngu orðið alveg sama um alla tíma. Þarna hljóp mér samt loksins kapp í kinn og því staldraði ég ekki lengi við og fór fljótt af stað aftur, ég var hissa að sjá að Kristján væri hér enn, ég bjóst ekki við að sjá hann aftur fyrr en í markinu. Hann hefur tekið gott stopp og því var ég aftur kominn á undan honum - eitthvað sem mér óraði ekki fyrir klukkutíma fyrr. Það var auðvitað ekki markmið að vera í einhverju kapphlaupi við hann né aðra en ég vissi að Kristján væri öflugur hlaupari og það gat þá varla verið að frammistaðan væri alslæm ef við værum á svipuðum tíma svona langt liðið á hlaupið. 

Þarna við Emstruskálann byrjaði sem sagt Laugavegshlaupið mitt, eftir 38 km! Þessi síðasti kafli á leiðinni var sá langbesti. Auðvitað voru fæturnir orðnir lúnir en það var loksins kominn kraftur í kallinn. Reyndar var ég helaumur í annarri stóru tánni, ég hafði rekið mig í nokkra steina og nibbur með öðrum fætinum en það truflaði ekki mikið. Fram að þessu var tilfinningin sú að allir væru að fara fram úr mér en þarna snerist það við. Ég fór loksins að sækja á þá sem voru á undan mér og það er töluvert betri tilfinning en hitt. Trúin á að geta klárað hlaupið fór vaxandi og það þyrfti eitthvað mikið til að koma í veg fyrir það. En það var ekki alveg sopið kálið, ég fór sérstaklega varlega niður allar brekkur, ætlaði ekki að detta og slasa mig þegar svona stutt væri í markið.

Við það að bresta í grát á endasprettingum
Það kom örlítið bakslag áður en ég kom að drykkjarstöðinni við Ljósá, orðinn vatnslaus og vantaði orku. Ég var búinn með 9 gel á leiðinni og vildi ekki taka það síðasta fyrr en ég kæmist í vatn. Það var því frábær tilfinning að komast þangað eftir svolítið hökt, fá síðustu áfyllinguna á brúsana og vera loksins kominn í almennilegan gróður eftir tæplega 50 km eyðimörk. Kaflinn eftir vaðið við Þröngá er auðvitað hápunktur hlaupsins, loksins áhorfendur að hvetja, skógarstígur og fullvissan um að aðeins væri örstutt eftir. Þá ákvað ég að hægja svolítið á mér og njóta augnabliksins í botn, vera ekkert að rembast upp síðustu alvöru brekkuna.

En endaspretturinn var bara nokkuð öflugur og ég var kominn á harðasprett eftir að leiðin fór að liggja niður á við og það var bara ekkert stuttur kafli. Það var ólýsanlegt að sjá nokkur kunnugleg andlit á meðal þeirra sem eru að hvetja hlauparana síðasta spölinn. Það er frábært þegar verið er að klappa og hvetja í erfiðu hlaupi en það hefur einfaldlega margfalt meira vægi ef ég þekki viðkomandi. Hvort sem það var þess vegna eða ekki en nokkrum andartökum áður en ég sá endamarkið helltust yfir mig alls konar tilfinningar og ég fann fyrir endalausu þakklæti og algjörri sælu, hvílík forréttindi það eru að hafa fengið að taka þátt í þessari þrekraun og vera kominn svona langt. 

Tilfinningarnar báru mig hreinlega ofurliði og ég hreinlega var við það að bresta í grát, nánast á eina staðnum á allri leiðinni þar sem voru áhorfendur! Ég harkaði af mér en það var ólýsanlegt að sjá endamarkið strax á eftir og þá helltust tilfinningarnar aftur yfir mig; þakklæti fyrir að tekist að klára þessa mestu líkamlegu þrekraun ævinnar. Markmyndirnar mínar sýna örmagna hlaupara sem er algjörlega búinn á því að pína sig yfir marklínuna í algjörri vanlíðan en staðreyndin er sú að mér hefur sjaldan liðið betur - það bara myndaðist svona illa.

Tíminn frá Emstrum og í markið hefur verið í kringum 2:08 sem er alls ekki svo galið. Lokatíminn var 7:09 sem verður að teljast bara nokkuð góður tími í fyrsta hlaupi - ég skil ekki hvernig ég hefði getað hlaupið þetta hraðar án þess að taka sénsinn á því að sprengja mig snemma í hlaupinu. Aðstæður voru einfaldlega of erfiðar, mikill snjór kringum Hrafntinnusker og töluverður mótvindur stóran hluta leiðarinnar. Þegar við bætist reynsluleysi af útivist á hálendinu og skakkaföll í undirbúningnum er þetta einfaldlega hárréttur lokatími. Reyndir Laugavegsfarar tala um að það væri óhætt að skrifa heilt auka-korter á erfiðar aðstæður að þessu sinni en markmið mitt um að vera undir 7 tímum var einmitt með fyrirvara um lítinn mótvind. En í sögulegu samhengi er þessi lokatími á sama hraða og síðasta Hvítasunnuhlaup þar sem ég gekk/skokkaði rólega með brákuð rifbein og Disney World maraþonið 2016 þar sem ég skokkaði rólega allan tímann og fór í eina rússíbanaferð í miðju hlaupi. Hins vegar var ég töluvert hraðari í Laugavegshlaupinu en í Esjuhlaupinu fyrr í sumar þar sem farnar eru tvær ferðir upp að Steini og brunað niður aftur.


Gleðin við völd að hlaupi loknu.

Það var gaman að geta glaðst með öðrum ofurhugum í marksvæðinu, ég og fleiri áttum svolítið erfitt með gang en flestir voru vel meðvitaðir um hið mikla afrek sem felst í að ljúka hlaupinu. Sumir eru óhjákvæmilega fljótari en aðrir, Bryndís María sá um að hirða bæði verðlaun okkar FH-inga og Ragnheiður varð í fjórða sæti í kvennaflokki í sínu fyrsta Laugavegshlaupi, aðeins ofurkvendið Elísabet Margeirsdóttir var á undan henni af íslenskum konunum.

Tíu FH-ingar voru skráðir í hlaupið og allir komust í mark sem verður að teljast frábært þar sem um 10% keppenda náðu ekki að klára hlaupið í þetta sinn.

Reynslunni ríkari - aftur með á næsta ári
Svo er það eftirá spekin, ég hef verið að grínast með það að það verði að taka þátt í Laugaveginum tvisvar; fyrst til að prófa og svo aftur til að læra af reynslunni og hlaupa hann rétt, þess vegna ætla ég að skrá mig aftur á næsta ári! En hvað ætla ég að gera öðruvísi næst? Eitt og annað kemur upp í hugann, það fyrsta er að stilla væntingum í hóf - bæði varðandi mögulegan lokatíma og upplifun. Aðstæður uppi á hálendi eru síbreytilegar og reyndir hlauparar segja að þess vegna sé ekkert Laugavegshlaup eins. Ég myndi reyna að fá gistingu nóttina fyrir hlaup í Landmannalaugum, það væri gott að losna við að þurfa að vakna um miðja nótt til að koma sér í rútuna.

Ég myndi líka reyna að finna hlaupafélaga á svipuðu tempói sem getur rifið mann áfram þegar aðstæður eru erfiðar, það er glatað að hlaupa einn þegar hausinn er ekki í lagi. Síðast en ekki síst er að gefa sér engan afslátt af æfingaprógramminu, ég lenti auðvitað í bakslagi í undirbúningnum en var líka svolítið kærulaus, sleppti of mörgum styrktaræfingum, var of slappur í brekkuhlaupunum og var að rembast í keppnishlaupum stuttu fyrir Laugaveginn. En líklega er ekkert sem getur búið mann betur undir Laugavegshlaup nema að hlaupa eitt slíkt áður.

Svo var auðvitað annað sem gekk vel, útbúnaðurinn var hárréttur og þægilegur, ég fór þó ekki úr síðbuxunum við Bláfjallakvísl eins og ég hafði ætlað mér, þar sem mér fannst einfaldlega ekki nógu hlýtt til að vera í stuttbuxum. Heilsan eftir hlaup var líka með skárra móti, engin núningssár en stóra táin hefur átt betri daga. Fæturnir eru auðvitað lúnir strax eftir hlaupið sem lagaðist daginn eftir, ég er venjulega með harðsperrur í nokkra daga eftir maraþon en slapp í þetta sinn. Mér telst til að ég hafi alls drukkið um fimm lítra af vatni á leiðinni, notaði fjórar Nuun freyðitöflur með steinefnum, notaði öll 10 gelin og át tvö Cliff orkustykki af fjórum sem ég var með. Það er líka nauðsynlegt að halda því til haga sem vel er gert. En mesta afrekið er auðvitað að taka þá ákvörðun að skrá sig í þessa þrekraun og fylgja því eftir, það er meira en 99% af öllum Íslendingum hefur gert.

 

Til baka
 
 
Athugasemdir
 
 
Settu inn athugasemd:

 
Sportv÷rur 2XU Jan 2020
HvÝtt bil 5 ß hŠ­ - 3
 
© Allur rÚttur ßskilinn. Birting ß ■essu efni ß ÷­rum mi­lum er ˇleyfileg nema me­ leyfi hlaup.is