Hausmynd2018-RM2017
Squeezy Sport Nutrition
Frˇ­leikur
Byrjendur
Almennur frˇ­leikur
  Jˇladagatal 2016
  Jˇladagatal 2015
  Ůjßlfun
  NŠringarfrŠ­i
  Mei­sli
  Skˇr
  Hlaupa˙tb˙na­ur
  Frˇ­leiksmolar
  Tilvitnanir
  Ţmislegt
Rß­gj÷f
Ăfingaߊtlanir
Eldri kannanir
Hlauphaldarar
Reglur
Framfarir - FÚlag
UmrŠ­ur
V÷rukynningar
Rvk. mara■on ═sl.banka
Leit
┴hugavert
Hlaupadagskrß 2020
Skrßningar Ý hlaup
Panta prˇgram
100km hlauparar
FÚlag mara■onhl.
HvÝtt bil 10 ß hŠ­
HvÝtt bil 10 ß hŠ­ - 3
Ăfingadagbˇk - 115x79
HvÝtt bil 5 ß hŠ­ - 1
hlaup.is ß Facebook
HvÝtt bil 5 ß hŠ­ - 3
English
HvÝtt bil 10 ß hŠ­ - 2
Póstur torfi@hlaup.is
Frˇ­leikur  >  Almennur frˇ­leikur  >  NŠringarfrŠ­i
5.5.2011
Um drykki, a­allega vatn, gildi ■ess og ver­mŠti - FRŮ

Inngangur
Vatn birtist okkur í mörgum mismunandi myndum allt frá því að vera hinn rennandi lífgjafi sem gerir jörðin byggilega og í það að vera örsmáir ískristallar sem jafnvel mynda ógnvænlega borgarísjaka. Vatn og súrefni eru án efa lífsnauðsynlegustu efni jarðarinnar því án þeirra væri ekkert líf.

Á hinn bóginn er vatn vara sem sífellt verður dýrmætari, sér í lagi vatn frá landsvæðum sem eru hrein og ómenguð, líkt og á Íslandi. Á mörgum landsvæðum er heilnæmt vatn ekki í boði eða aðeins í mjög takmörkuðu magni og meðal margra þjóða í Afríku eru vatnsból strjál og fólk þarf að ferðast um óravegu til að sækja þessa lífsnauðsyn. Þetta er erfitt verk sem lendir oftar en ekki  á konum og börnum. Það kemur því ekki á óvart að íslenskt drykkjarvatn með hreinleika sinn verður sífellt eftirsóknarverðara og útflutningur á því sífellt viðameiri jafnvel til landa Evrópuríkjanna.

Algengt sýrustig (pH gildi) vatns er á bilinu 7-9 sem er nálægt sýrustigi munnvatns og er í raun hlutlaust. Sýrustig íslensks vatns er ekki mikið í umræðunni eða merkt utan á umbúðir drykkjanna, en svo virðist sem gildin séu nær 9 (Foss frá Nordic Water og Iceland Spring Water) á meðan algengar tölur frá öðrum Evrópulöndum til að mynda í Bretlandi, á Möltu, í Þýskalandi og Austurríki eru á bilinu 6,5 - 7,5.

Vökvahlutfall mannslíkamans
Mannslíkaminn geymir miklar birgðir af orku í formi fitu í fitufrumum, kolvetna í vöðvum og lifur og próteina í formi vöðva. Því getur maðurinn lifað án næringar í langan tíma. Hins vegar getur enginn lifað án vökva nema í mjög takmarkaðan tíma sem er háður hita- og rakastigi umhverfisins.

Líkami fullorðins einstaklings er um 60% (55-75%) vökvi og vöðvar eru um 78% vökvi . Vökvahlutfall líkamans er háð því hversu stór hluti er fita og hversu stór hluti fitulaus massi. Fitulaus massi er um ¾ hlutar vökvi meðan fita er aðeins ¼ hluti vökvi.

Skipting vökva í líkamanum
Innanfrumuvökvi (intracellular fluid) er eins og nafnið bendir til innan frumunnar. Hann er hár í steinefnunum kalíum og fosfat, hlutfall innanfrumuvökvans er um 2/3 hluti alls þess vökva sem í líkamanum er.

Millifrumuvökvi (interstitial fluids) er utan frumunnar eða í raun milli frumanna, yfirleitt hár í natríum og klór. Þessi hluti er einnig kallaður utanfrumuvökvi (extracellular fluid) og þar fellur undir plasma blóðsins og vökvi vefja eins og húðar og beina.  Utanfrumuvökvi er um 1/3 hluti af vökvahlutfalli líkamans.

Hlutverk vökva
Hjartsláttur og taugaboð eru háð vökva og réttu vökvajafnvægi en þessi ferli eru undirstaða þess að halda líkamanum starfandi og heilbrigðum

Hitastjórnun líkamans er einnig stýrt með svitamyndun og útgufun sem hindrar ofhitnun líkamans. Önnur ferli í líkamanum sem háð eru vatni og vökva eru melting og flutningur næringarefna til fruma líkamans, auk þess sem liðir eru smurðir með vökva og fóstur er umlukið vökva í legi móður sinnar á meðgöngunni.

Meginhlutverk vökva í líkamanum eru eftirfarandi:

 • Melting á fæðu og flutningur næringarefna og súrefnis til fruma líkamans.

 • Flutningur  úrgangsefna frá frumum og út úr líkamanum með þvagi og svita.

 • Viðhald  stórra sameinda eins og próteina og glýkógens sem er forðaorka á formi kolvetna í vöðvum og lifur.

 • Hlutverk í lífeðlisfræðilegum ferlum í líkamanum til að mynda efnaskiptum.

 • Nauðsynlegur leysir fyrir steinefni, vítamín, amínósýrur, glúkósa og mörg önnur lítil efnasambönd.

 • Vökvi er einnig frábært smurningsefni og gegnir mikilvægu hlutverki í kringum liðamót, inni í augum og inni í mænunni sem mænuvökvi svo nokkur dæmi séu nefnd.

 • Á meðgöngu umlykur legvatnið fóstrið og sér því fyrir öllum nauðsynjum.

 • Vökvi er meginuppistaðan í blóðinu, þá sem blóðvökvi.

 • Vökvi á formi svita er það sem stýrir hitajafnvægi líkamans og hindrar að líkaminn ofhitni.

Til þess að öll þessi ferli sem upp hafa verið  talin virki eins og þau eiga að gera þarf svokallað vökvajafnvægi (water balance) að ríkja en því er meðal annars stýrt af hluta heilans sem kallast undirstúka (hypothalamus) sem einnig stýrir hitajafnvægi, mettunar- og hungurtilfinningu.

Hvað stýrir vökvainntöku
Þorsti og mettunartilfinning hafa áhrif á vökvainntöku í tengslum við skynjun í munni, boð frá undirstúku og skilaboð frá taugum. Munnurinn verður þurr og undirstúka sendir þá út boð sem hvetja til vökvainntöku. Þorsti hvetur til vökvaneyslu en oft berast boð um þorsta ekki nógu fljótt sem þá getur leitt til vökvaskorts. Þá verður ósamræmi milli þess sem líkaminn þarfnast og þeirra viðbragða sem fara af stað. Einnig skiptir máli hvernig vökvaskortur þróast; ef hann er hægfara eru meiri líkur á því að líkaminn bregðist við í tíma og leiðrétti ástandið áður en það verður alvarlegt. Þó svo að líkaminn hafi innbyggt kerfi sem gefur til kynna þegar vökva er þörf þá er mest um vert að einstaklingar fylgist með vísbendingum og gefi sér tíma til að fá sér að drekka.

Mikill misskilningur ríkir gjarnan um magn þess vatns og vökva sem einstaklingar þurfa að innbyrða og margir standa í þeirri trú að  „meira sé betra" . Ef allt of mikils vatns er neytt fara nýrun að skola út of miklu af lífsnauðsynlegum  vítamínum og steinefnum. Ef steinefni skolast út í of miklu magni getur það haft alvarlegar afleiðingar fyrir líkamann, til að mynda fyrir taugaboð og hjartslátt, lífsnauðsynleg ferli sem eru sérstaklega háð nægu magni af steinefnunum natríum og kalíum. Einnig getur of mikil vatnsdrykkja valdið  of miklu álagi á þvagkerfið og eru þekkt tilfelli um það, aðallega hjá kvenfólki.

Þegar of mikið er drukkið  gefa þanstöðvar í maganum merki um að nóg sé komið og svipaða sögu má segja um boðkerfi innan hjartavöðvans sem hafa áhrif á blóðmagn. Þannig bregst líkaminn við þessu óeðlilega ástandi og gefur einstaklingnum aðvörun og tækifæri til að grípa í taumana.  Slík aðvörun gæti verið ógleði og jafnvel uppköst vegna þess mikla vökva sem í maganum er.

Þegar vökvahlutfall í blóði minnkar þá má segja að blóðið þykkni þar sem hlutfall ýmissa efna verður hærra á kostnað blóðvökva. Við þetta leitast líkaminn við að leiðrétta hlutfallið því þykkt blóð rennur til að mynda ekki eins greitt og blóð með rétt vökvahlutfall. 

Hita- og rakastig umhverfis  og það hversu mikið hver og einn svitnar í daglegu lífi eru þættir sem hafa áhrif á það hversu mikinn vökva þarf að innbyrða yfir sólarhringinn. Líkami meðalmannsins þarf aðeins að losa sig við um 500 ml af vökva á dag í formi þvags, en undir eðlilegum kringumstæðum flytur þetta magn af þvagi með sér þau uppsöfnuðu efni  sem myndast við eðlilega líkamsstarfsemi og bruna í líkamanum. Það magn af vökva sem líkaminn losar sig við umfram þetta er aðeins til að tryggja eðlilegt vökvajafnvægi. Eftir því sem meira er drukkið af vatni verður þvagið þynnra og ljósleitara. Það er þó litur þvagsins sem er besti mælikvarðinn á það hvort nóg sé drukkið, þvag sem er eins og sítrónuvatn (límonaði) á litinn beri þess merki að nóg sé drukkið en þvag sem minnir á eplasafa er hins vegar merki um vökvaskort.

Aðrar leiðir sem líkaminn notar til að stuðla að réttu vökvajafnvægi, samhliða stjórnun á hitastigi í líkamanum er svitamyndun en einnig tapast vökvi sem raki í útöndunarlofti og með saur. Að meðaltali er vökvatap um það bil 2-2 ½ l á dag.

Uppsöfnun á vökva í líkamanum
Ýmsir sjúkdómar og lyf hafa áhrif á vökvajafnvægi líkamans og geta jafnvel valdið bjúgsöfnun og þrota t.d. í fingrum og sokkaför á öklum. Bjúgsöfnun þarf þó ekki endilega að tengjast sjúkdómum heldur getur of mikil neysla á salti og of lítil vökvadrykkja valdið uppsöfnun á vökva. Einnig getur hreyfingarleysi og miklar kyrrsetur haft áhrif. Besta leiðin til að sporna gegn þessu er að takmarka neyslu á söltum mat og unnum matvælum og í staðinn að elda mat úr fersku hráefni og velja lítið unnar matvörur. Einnig að takmarka notkun á salti, saltríkum kryddblöndum og sojasósu við matargerð. Þeir sem þegar hafa vanið sig á mikla saltnotkun geta dregið úr þessari löngun í saltan mat með smá þolimæði og breytingum á innkaupum og matargerð.

Ráðleggingar um vökvaneyslu
Ráðleggingar um vökvaneyslu eru mjög mismunandi en mikilvægt er að átta sig á því hvaðan þær ráðleggingar koma. Það er mjög sjaldgæft að einstaklingur í venjulegri hreyfingu og í hefðbundinni vinnu þurfi 5 - 6 l eða jafnvel meira af vökva yfir daginn. Slíkt væri meira í takt við einstakling sem vinnur bústörf allan daginn, í litlum klæðum, í sól og heitu og þurru loftslagi í Afríku. Besta leiðin til að tryggja nægjanlegt og hæfilegt magn á vökva er að drekka jafnt og þétt yfir daginn, forðast að finna fyrir þorstatilfinningu og leitast við að hafa þvagið ljósleitt á litinn.

Ráðleggingar um vökvaneyslu eru nákvæmast settar fram sem magn í ml í tengslum við daglega orkubrennslu. Hins vegar er þetta ekki mjög hentug leið fyrir venjulegan einstakling til að meta með vissu vökvamagnið sem hann þarf að innbyrða yfir daginn.  Ráðlagt vatnsmagn fyrir fullorðna er til að mynda 1-1,5 ml fyrir hverja kcal sem brennt er, sem gæti útlagst sem 1 lítið vatnsglas fyrir hverjar 100 kcal.

Til að mæta vökvaþörf líkamans er vatn besti drykkurinn. Hins vegar gæti glas af hreinum ávaxtasafa og glas af magurri mjólk verið ágæt viðbót við daglega vatnsneyslu en þessir drykkir innihalda jafnframt mikilvæg næringarefni sem líkaminn þarfnast.

Drykkir eins og kaffi, orkudrykkir og aðrir drykkir sem innihalda koffín eru á hinn bóginn ekki æskilegir í miklu magni þegar leitast er við að stuðla að réttu vökvajafnvægi. Það er vegna þess að koffín örvar þvagframleiðslu og því koma koffínríkir drykkir ekki í staðinn fyrir vatn. Hins vegar eru þessir drykkir ekki eins þvaglosandi eins og áður var talið.

Áfengi hefur einnig örvandi áhrif á þvagframleiðslu, til að mynda tapast um það bil helmingurinn af þeim vökva sem drukkinn er í einum drykk t.d. bjór, vegna þvagörvandi áhrifa. Rannsóknir hafa sýnt að nægur vökvi getur spilað stórt hlutverk við að vernda þvagblöðruna og draga úr líkum á blöðrukrabbameini með því að þynna innihald hennar og örva losun hennar.

Áhrif vökvaskorts á líkamann.

Vökvatap mælt í % af tapaðri líkamsþyngd


Einkenni

1 - 2

Þorsti, þreyta, slappleiki, sljóleik, óþægindi, skortur á matarlyst

3 - 4

Minnkuð líkamleg geta, munnþurrkur, minnkuð þvagframleiðsla, óþolinmæði, áhugaleysi

5 - 6

Minnkuð einbeiting, höfuðverkur, pirringur, syfja, brengluð hitastjórnun, aukinn öndunarhraði

7 - 10

Svimatilfinning, vöðvakrampi, jafnvægisskortur, örmögnun, yfirlið, meðvitundarleysi.

15 - 20

Banvænt

Áhrif vökvaskorts á árangur í íþróttum

Vökvatap mælt í % af tapaðri líkamsþyngd


Árangurstap

1

5% árangurstap, jafngildir um 17 sek hægari tíma á 1500m vegalengd

2

10 - 19% árangurstap, jafngildir á bilinu 6-7% hægari hlaupatíma

4

20 - 29% árangurstap

5

30% árangurstap

Æskilegri drykkir
Þegar metið er hvort drykkir séu æskilegir eða ekki þá er eðlilegt að horfa til næringargildis, sykurmagns, örvandi áhrifa drykkjanna og einnig hvort þeir hafi mögulega glerungseyðandi áhrif vegna lágs sýrustigs. Almennt viðmið þar er að hafi drykkurinn pH-gildi sem er hærra en 4,5 er hann ekki glerungseyðandi. Einnig má horfa til orkugildis og þess hvort að mjög mikil neysla á drykkjum eins og til dæmis mjólk,  mjólkurvörum og ávaxtasöfum sé að koma í staðinn fyrir vatn og hollan mat. Sykursjúkum er ráðlagt að drekka aðeins hreina ávaxtasafa, en ekki safadrykki með viðbættum sykri, en jafnframt að stilla neyslu þeirra í hófi þar sem ávaxtasafar hækka blóðsykurinn hratt.

Bragðbætt vatn má finna í töluverðu úrvali á Íslandi og um heim allan, með og án kolsýru og með og án sykur eða annars sætugjafa. Sumar tegundir eru vel samsettar og vel hugsað um hag neytenda hvað varðar orkugildi, sykurmagn og síðast en ekki síst glerungseyðandi áhrif. Sumir þessir drykkir eru með hagstætt sýrustig og innihalda engin efni sem stuðlað geta að eyðingu glerungs, aðeins náttúruleg bragðefni eru notuð og enginn sykur eða sætuefni. Slíkum drykk er ætlað að ýta undir neyslu á heilsusamlegri drykk á kostnað gosdrykkja. Á þennan máta má einnig takmarka hitaeininganeyslu sem er jákvætt fyrir þá sem þurfa að grennast og gæta að orkuinntökunni.

Þeir drykkir sem telja má upp sem æskilegri til að stuðla að daglegu vökvajafnvægi og við þjálfun eru auk vatns, bragðbætt vatn með sýrustig hærra en 4,5 og án sítrónusýru og sykurs, kolsýrt vatn eða sódavatn, magrar mjólkurvörur og hreinn ávaxtasafi. Í þessu sambandi gæti drykkjaúrval fyrir fullorðinn einstakling yfir daginn gæti verið vatn, rétta bragðbætta vatnið, sódavatn, eitt glas af léttmjólk, fjörmjólk eða undanrennu og eitt af hreinum safa helst með aldinkjötinu (trefjunum).

Ekki er hægt að skilja við þennan flokk drykkja án þess að nefna kolsýrt vatn eða sódavatn. Kolsýran hefur ekki glerungseyðandi áhrif þó svo að hún beri nafnið -sýra þar sem hún er ekki nægjanlega súr. Ef hins vegar kolsýrða vatnið er nægjanlega súrt, eða undir 4,5 þá, hefur það glerungseyðandi áhrif. Rotvarnarefnið sítrónusýra (E330, citric acid) hefur meiri glerungseyðandi  áhrif en fosfórsýra (E338).

Aðrir drykkir
Hvað te varðar þá eru til mjög margar mismunandi tegundir og teljast jurtate betri kostur samanborið við þau dökku þar sem jurtate innihalda yfirleitt ekki koffín. Þó er mikilvægt að velja te af kostgæfni og sér í lagi öll vökvalosandi te. Líkamanum er eðlilegt að viðhalda tilteknu vökvajafnvægi og heilbrigður líkami á að geta viðhaldið því með nægri vökvadrykkju, hæfilega saltríku mataræði og að lokum hæfilegri hreyfingu. Því er óþarfi fyrir heilbrigða einstaklinga að þamba vökvalosandi te yfir daginn. Þeir sem eiga við bjúgsöfnun að stríða ættu að leita læknis og fá úr því skorið af hverju bjúgsöfnunin stafar en orsökin getur legið í hjarta, æðum, nýrum eða lifur.

Margir eru að drekka mikið magn af grænu tei og það jafnvel í staðinn fyrir kranavatn. Mikilvægt er að muna að allt er gott í hófi og þó svo að grænt te innihaldi ýmis heilnæm efni þá er ekki æskilegt að drekka of mikið af því.

Te, þó dökkt sé, er talinn betri kostur en kaffi, þar sem það inniheldur minna koffín og er því minna örvandi. Neysla á kaffi er mjög mikil á Íslandi en ráðleggingar Lýðheilsustöðvar miða við 3-4 bolla af kaffi á dag. Ófrískum konum er þó ráðlagt að takmarka sig við mest 1-2 bolla af kaffi á dag eða 3-4 bolla af te á dag því mikil koffínneysla er talin geta aukið líkur á fósturláti. Kóla- og orkudrykkir innihalda minna magn koffíns í 100 ml en þó er æskilegt að stilla neyslu þeira einnig í hóf. Ein dós (200-250 ml) af dæmigerðum orkudrykk inniheldur til að mynda um það bil sama magn af koffíni og 2 bollar af sterku kaffi.

Gos telst ekki meðal æskilegri drykkja og er því ekki inn í því magni sem ráðlagt er að drukkið sé yfir daginn.  Gífurlega mikil gosneysla er einn af mestu ósiðum okkar Íslendinga hvað matar- og drykkjarvenjur snertir, hvort heldur sem þeir eru sykraðir eða sykurlausir. Í könnun Lýðheilsustöðvar frá árinu 2003 drukku unglingspiltar að meðaltali næstum 1 l af sykruðu gosi á degi hverjum sem er gífurlega há tala en ½ l af sykruðum gosdrykk inniheldur sem svarar 17 teskeiðum af sykri sem er tóm orka og engin næring. Annar ókostur gosdrykkja, hvort heldur sykraðir eða sykurlausir, er hið lága sýrustig þeirra sem fellur á bilinu 1-3 og er mjög glerungseyðandi.

Hófleg neysla á íþróttadrykkjum fyrir þá sem þurfa þeirra með vegna mikils og langvarandi líkamlegs álags eru í lagi en gæta þarf vel að tannheilsu sé þeirra neytt í einhverju  magni því hætta er á glerungseyðingu og tannskemmdum af völdum þeirra. Tilraunir eru í gangi með að bæta kalki í íþróttadrykki með það fyrir augum að draga úr glerungseyðandi áhrifum þeirra. Þetta er vandasamt verk en að sama skapi er það mikill ávinningur ef vel tekst til. Í sumum tilfellum er hagstæðara fyrir tennurnar að kaupa íþróttadrykki í duftformi og blanda sjálfur eftir þörfum þar sem duftið inniheldur lítið af rotvarnarefnum eða jafnvel engin. 

Koffín
Koffín hefur margvísleg áhrif á líkamann. Æðar víkka út, hjartsláttur verður hraðari og við það eykst blóðflæði um allan líkamann. Koffín hefur einnig bein áhrif á öndun, meltingu og þvagmyndun. Við mikla neyslu á koffíni geta komið fram alvarlegri einkenni eins og hjartsláttartruflanir, kvíð og skjálfti auk höfuðverkjar, svima og svefnleysi. Höfuðverkur er einnig algengt fráhvarfseinkenni þegar koffíns hefur ekki verið neytt í tiltekinn tíma. Koffín er mjög ávanabindandi og nota mjög margir það á hverjum degi til að hressa sig við og komast af stað inn í daginn. Versta er þó ef að koffínríkir drykkir koma í staðinn fyrir alvöru orku og á sama tíma holla næringu eins og gerist hjá of mörgum.

Þeir hópar sem viðkvæmastir eru fyrir koffíni eru börn og unglingar því er óæskilegt að þau venjist á neyslu þess. Koffín getur valdið ýmsum breytingum á hegðun þeirra til dæmis óróleika, pirringi og svefnleysi, jafnvel kvíða til viðbótar við þau einkenni sem áður er lýst.

Aðrir sem ættu að huga vel að koffínneyslu sinni eru ófrískar konur þar sem talið er að mikið koffín geti valdið fósturláti og ættu þær að miða við mest 1-2 bolla af kaffi á dag.

Koffín er að finna í mis miklu magni í kaffi, te, kakói, sumum tegundum gosdrykkja (kóladrykkjum og Mountain Dew), orkudrykkjum, svokölluðum orkuskotum og jafnvel sumum tegundum íþróttadrykkja. Auk koffíns innihalda orkuskotin og orkudrykkirnir oftar en ekki önnur örvandi efni eins og guarana (koffín) og gingseng. Magn koffíns í drykkjum er nokkuð vel þekkt eins sjá má í meðfylgjandi töflu:

Drykkur

Magn

mg koffín

mg koffín/100 ml

Kaffi, meðal

250 ml

100 mg

40 mg

Kóladrykkur

500 ml

65 mg

13 mg

Svart te

200 ml

35 mg

17-18 mg

Orkuskot

50-60 ml

80-220 mg

yfir 160 mg

Orkudrykkur

500 ml

160 mg

32 mg

 

 

 

 

Dökkt súkkulaði

50 g

33 mg

66 mg

Það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir hættunni sem stafar af því að neyta mjög mikils magns af koffíni yfir stutt tímabil en enginn ætti að blanda saman áfengi og orkudrykkjum eða orkuskotum því það getur valdið mjög alvarlegum hjartsláttartruflunum. Segja má að sama gildi um koffínneyslu og líkamsáreynslu en koffínríkir drykkir, sér í lagi orkudrykkir og orkuskot, eru alls ekki réttu drykkirnir undir þeim kringumstæðum, bæði eru þeir örvandi auk þess að auka þvagmyndun sem dregur vökva úr líkamanum.

Sett hafa verið upp viðmið fyrir daglega koffínneyslu mismunandi hópa einstaklinga:

 • Fullorðnir: 400mg koffín/dag
 • Ófrískar konur: 200mg koffín/dag
 • Börn & unglingar: 2,5 mg/kg líkamsþyngdar/dag


Glerungseyðing
Glerungseyðing er skilgreind sem óafturkræft tap á tannvef vegna efnafræðilegs ferlis þar sem bakteríur koma hvergi nærri. Helstu einkenni eru aukið næmi fyrir hita og kulda en með tímanum þá breytist formið á tönnunum og bros (munnsvipur) einnig. Glerungseyðing er stórt vandamál í heiminum í dag og fer Ísland engan varhluta af þessu vandamáli. Það á þó sérstaklega við um tiltekna aldurshópa og þá einkum unglinga samkvæmt íslenskum og erlendum rannsóknum, en 37,5% 15 ára drengja á Íslandi greinast með glerungseyðingu skv. samkvæmt rannsókn frá árinu 2007.

Niðurstöður rannsóknar á glerungseyðandi áhrifum sykraðra og ósykraðra gosdrykkja, íþróttadrykkja, orkudrykkja, bragðbætts vatns og óbragðbætts eru þær að drykkir sem innihalda þráavarnarefnið sítrónusýru (E330, citric acid) hafa meiri glerungseyðandi  áhrif en þeir drykkir sem innihalda rotvarnarefnið fosfórsýru (E338).

Sykraðir gosdrykkir, íþróttadrykkir og orkudrykkir hafa mun meiri eyðingarmátt en vatnsdrykkir og eru orku- og íþróttadrykkir þar verstir en drykkir með sykri og sítrónusýru voru skammt undan. Sykraðir drykkir voru meira glerungseyðandi en sykurlausir og sykurskertir drykkir. Einnig var sýnt fram á að bragðbætt vatn sem innihélt sítrónusýru er jafn glerungseyðandi og sykraðir drykkir sem innihalda fosfórsýru.

Rétt er að taka fram að bragðbætt og óbragðbætt vatn sem ekki inniheldur sýru af neinu tagi er ekki glerungseyðandi ekki frekar en vatn og mjólk.

Það virðist skipta máli upp á eyðingu glerungsins hvernig súrra drykkja eins og gosdrykkja er neytt. Betra er að drekka drykkinn allan í einu heldur en í smærri skömmtum yfir lengri tíma, það er vegna þess að það tekur hlutleysandi efni í munnvatninu um það bil hálfa klukkustund að virka. Það ferli má reyndar stytta með því að tyggja tyggjó sem flýtir fyrir munnvatnsframleiðslu og þar af leiðandi hlutleysingu sýrunnar.

pH gildi nokkurra vinsælla drykkja á Íslandi                      

Drykkur pH gildi*
Foss, íslenskt vatn 8,8
LazyTown íslenskt vatn 8,8
Foss, lime 8
LazyTown LemonTwist 8
LazyTown Strawberry Twist 7,2
Egils Kristall - hreinn 5,92
Frissi Fríski - appelsínu 3,71
Svali - appelsínu 3,49
Magic 2,9
Aquarius 2,82
Tommi & Jenni  - appelsínu 2,73
Orka 2,67
Kók 2,49
*þeim mun lægri tala þeim mun skaðlegra fyrir glerung tannanna

Apríl 2011
Fríða Rún Þórðardóttir
Næringarfræðingur, næringarráðgjafi, íþróttanæringarfræðingur.                      
Landspítali, World Class, Heilsustöðin

===

Heimildir:
Lýðheilsustöð, fræðsluefni um koffín í drykkjum barna og unglinga.
Hreinar tennur - heilar tennur; viðtal Hólmfríður  Guðmundsdóttir Fréttatíminn 5. Nóvember 2010
Þorbjörg Jensdóttir, PhD.Department of Oral Medicine, Dental School of Copenhagen, samskipti.

 

Til baka
 
 
Athugasemdir
 
 
Settu inn athugasemd:

 
Sportv÷rur 2XU Jan 2020
HvÝtt bil 5 ß hŠ­ - 3
 
© Allur rÚttur ßskilinn. Birting ß ■essu efni ß ÷­rum mi­lum er ˇleyfileg nema me­ leyfi hlaup.is