Óvenjuspennandi Lundúnamaraþon framundan

uppfært 19. apríl 2023

London maraþonið verður hlaupið í 43. sinn nk. sunnudag 23. apríl. Listi yfir skráða þátttakendur í London hefur oft gefið tilefni til eftirvæntingar, en þó sjaldan eins og núna. Sérstaklega hlýtur maraþon áhugafólk að bíða spennt eftir kvennahlaupinu, ekki bara vegna þess að þar verða nokkrar bestu maraþonkonur sögunnar mættar á ráslínuna, heldur líka vegna þess að þarna munu bæði Sifan Hassan og Eilish McColgan þreyta frumraun sína á þessari vegalengd.

Sem dæmi um mögulega sigurvegara í London má nefna eftirtaldar sjö konur (í röð eftir besta árangri til þessa):

Brigid Kosgei (Kenía, f. 1994, best 2:14:04 klst)

Brigid Kosgei á heimsmetið í maraþonhlaupi kvenna, 2:14:04 klst, sett í Chicago haustið 2019. Hún hefur hlaupið a.m.k. 16 maraþon á síðustu 12 árum, unnið a.m.k. 9 þeirra og fjórum sinnum verið í öðru sæti. Samtals hefur hún hlaupið sex sinnum undir 2:20 klst og engin af maraþonkonum samtímans getur státað af annarri eins sigurgöngu. Þetta verður 5. London maraþonið hennar, en hún lenti í 2. sæti 2018, vann bæði 2019 og 2020 og varð nr. 4 2021. Í fyrra gat hún ekki verið með vegna meiðsla. Brigid gæti sem best unnið hlaupið, en ég hef samt meiri trú á að það takist ekki.

Brigid Kosgei
Brigid Kosgei
Peres Jepchirchir (Kenía, f. 1993, best 2:17:16 klst)

Peres Jepchirchir átti um tíma heimsmetið í hálfu maraþoni (1:05:16 klst), en sigurganga hennar í maraþonhlaupum hófst fyrir alvöru á Ólympíuleikunum í Tókýó (Sapparo) 2021 þar sem hún vann gullið á 2:27:20 klst. Síðan þá hefur hún verið ósigrandi í „stóru maraþonhlaupunum“, þar sem hún vann bæði New York 2021 á 2:22:39 klst. og Boston 2022 á 2:21:02 klst. Sigur í London væri því enn ein fjöður í hatt sem þegar er vel skreyttur. Besta tímanum sínum (2:17:16 klst) náði hún þegar hún vann Valencia maraþonið 2020.

Almaz Ayana (Eþíópía, f. 1991, best 2:17:20)

Almaz Ayana hefur bara hlaupið eitt maraþon um dagana. Það var í Amsterdam í október sl. og tíminn hennar (2:17:20 klst.) var þá besti tími nýliða frá upphafi. Ferill Almaz í brautarhlaupum er einstaklega glæsilegur og líklega reis sá ferill hæst í 10.000 m hlaupinu á Ólympíuleikunum í Ríó 2016 þegar hún stórbætti 23 ára gamalt heimsmet kínversku stúlkunnar Wang Junxia og kom langfyrst í mark á 29:17,45 mín í beinni útsendingu á RÚV undir eftirminnilegri lýsingu Sigurbjörns Árna Arngrímssonar. Eftir þetta afrek var Almaz Ayana valin frjálsíþróttakona ársins hjá Alþjóðafrjálsíþróttasambandinu. Tíminn hennar í Amsterdam síðasta haust kom eftir þriggja ára hlé frá keppni vegna meiðsla og barneigna og 12. mars sl. vann hún svo Lissabon hálfmaraþonið á 1:05:30 klst. Hún kemur því greinilega vel undan vetri og ætti að eiga býsna góða möguleika í London.

Yalemzerf Yehualaw (Eþíópía, f. 1999, best 2:17:23)

Yalemzerf Yehualaw á stutta en einkar glæsilega maraþonsögu að baki. Ekki er liðið nema eitt ár frá fyrsta maraþonhlaupinu hennar, en það var í Hamborg 24. apríl í fyrra. Þar kom hún langfyrst í mark á 2:17:23 klst, sem var á þeim tíma besti tími nýliða frá upphafi. Tíminn var líka sá besti sem náðst hafði á þýskri grundu – og það þrátt fyrir talsverðan vind og þrátt fyrir að hún hefði haft svo mikla yfirburði að næsti keppandi var næstum 3 km á eftir henni. Hálfu árið síðar vann hún London maraþonið á 3 sek lakari tíma en í Hamborg og var þá yngsti sigurvegari hlaupsins frá upphafi. Fleiri eru maraþonin ekki, en af öðrum afrekum Yalamzerf Yehualaw má nefna heimsmetið í 10 km götuhlaupi (29:14 mín), sett á Spáni í febrúar 2022. Í janúar síðastliðnum hljóp hún svo á 29:19 mín í Valencia og var nærri mínútu á undan næstu konu í mark. YY á líka næstbesta hálfmaraþontíma sögunnar (1:03:51 klst). Ég ætla að spá Yalemzerf Yehualaw sigri á sunnudaginn, annað árið í röð.

Yalemzerf Yehualaw London Maraþon 2023
Yalemzerf Yehualaw
Genzebe Dibaba (Eþíópía, f. 1991, best 2:18:05)

Genzebe Dibaba er án nokkurs vafa eitt stærsta nafnið á ráslínunni í London. Dibaba-fjölskyldan er sögð vera fljótasta fjölskylda sögunnar, en eldri systurnar Ejegayehu (f. 1982) og Tirunesh (f. 1985) hafa báðar unnið til verðlauna í hlaupagreinum á Ólympíuleikum og eru báðar ofarlega á maraþonafrekaskránni frá upphafi (2:22:09 og 2:17:56 klst). Og reyndar eru hlaupasysturnar fleiri. Samanlagt eiga þær fjögur gull, tvö silfur og þrjú brons frá Ólympíuleikum, auk 15 heimsmeistaratitla. Sjálf á Genzebe sex heimsmet eins og staðan er í dag, þ.e. í 1.500 m hlaupi utanhúss og í mílu, 2.000, 3.000, tveimur mílum og 5.000 m innanhúss. (Að vísu er formlega séð ekki talað um heimsmet í 2.000 m og tveimur mílum, heldur besta heimsárangur). Genzebe Dibaba sneri sér að götuhlaupum haustið 2020 og hljóp fyrsta og hingað til eina maraþonið sitt í Amsterdam í október 2022, þar sem hún kom önnur í mark á eftir Almaz Ayana á 2:18:05 klst. Þann 9. febrúar sl. hljóp hún hálft maraþon í Barcelona á 1:05:46 klst. Þar lenti hún reyndar „bara“ í 5. sæti, en tíminn segir manni samt að hún er til alls líkleg í London.

Genzebe Dibaba
Genzebe Dibaba
Sifan Hassan (Holland, f. 1993, fyrsta maraþonið)

Sifan Hassan fæddist í Eþíópíu en kom til Hollands sem flóttamaður 15 ára gömul. Hún fór að láta verulega til sín taka á alþjóðlegum mótum 2013 og síðustu árin hefur hún verið í allra fremstu röð. Sem dæmi má nefna að hún á heimsmet í míluhlaupi, 5 km götuhlaupi og klukkustundarhlaupi. Auk þess setti hún heimsmet í 10.000 m hlaupi vorið 2021 þegar hún bætti 5 ára met Almaz Ayana um heilar 11 sek. Letesenbet Gidey gerði hins vegar enn betur tveimur dögum síðar. Evrópumetin eru enn fleiri, en þar á Sifan Hassan metin í 1.500, míluhlaupi, 3.000, 5.000, 5 km götuhlaupi, 10.000 og hálfu maraþoni (1:05:15 klst). Stærstu sigrana vann hún á Ólympíuleikunum í Tókýó 2021 þar sem hún varð fyrsta konan í sögunni til að vinna gull í 5.000 m og 10.000 m og ná líka bronsi í 1.500 m. London maraþonið verður frumraun hennar á þeirri vegalengd og eðlilega vekur þátttaka hennar þar mikla athygli. Árangur hennar síðustu 12 mánuði gefur þó tæplega tilefni til að búast við henni í allra fremstu röð í London. Henni tókst til að mynda ekki að fylgja glæsilegum árangri í Tókýó eftir á síðasta ári og í fljótu bragði verður ekki séð að hún hafi sýnt spilin sín það sem af er þessu ári. Það þarf þó ekki að vera veikleikamerki – og sjálf segist hún vera tilbúin til að „taka skref inn í hið óþekkta“. Annað hvort muni hún klára þessa vegalengd eða vegalengdin muni klára hana.

Sifan Hassan London Maraþon 2023
Sifan Hassan
Eilish McColgan (Skotland, f. 1990, fyrsta maraþonið)

Rétt eins og Sifan Hassan þreytir Eilish McColgan frumraun sína í maraþoni í London. Árangur hennar síðustu mánuði gefur tilefni til mikilla væntinga, en fyrsta maraþonið er þó alltaf óvissuferð sem engin leið er að spá hvernig endar. Nýjasta afrekið hjá Eilish var öruggur sigur í Berlínarhálfmaraþoninu 2. apríl sl., þar sem hún hljóp á 1:05:42 klst. á vindasömum degi og setti breskt met þrátt fyrir ónot í læri síðasta kílómetrann. Aðeins þrjár evrópskar konur hafa náð betri tíma, þ.á m. Sifan Hassan (fyrir fjórum og hálfu ári). Mánuði fyrr setti Eilish breskt met í 10.000 m hlaupi, 30:00,86 mín, en þess má geta að Paula Radcliff átti gamla metið og Sifan Hassan er eini Evrópubúinn sem náð hefur betri tíma. Og fyrir tæpu ári setti Eilish Evrópumet í 10 km götuhlaupi (30:19 mín). Sjálf hefur Eilish sagt í viðtölum að allt undir 2:26 klst. í London væri stór áfangi fyrir hana og reyndar nóg til að ná þremur markmiðum á einu bretti. Í fyrsta lagi myndi hún þá bæta tíma móður sinnar Liz McColgan (2:26:52 klst. frá 1997), sem sé eina fjölskyldumetið sem hún á eftir að ná (Liz vann einmitt London maraþonið 1996), í öðru lagi bæta skoska metið (2:26:40 klst.) og í þriðja lagi ná lágmarki fyrir Ólympíuleikana 2024, (sem gætu orðið 4. Ólympíuleikarnir hennar). Þess má geta að Eilish McColgan er ekki aðeins eina hörundsljósa hlaupakonan sem er líkleg til að blanda sér í toppbaráttuna í London, heldur er hún líka hávaxnari en flestir keppinautar hennar fyrr og síðar (um 180 cm) og jafnframt mjög grannvaxin eins og títt er meðal hlaupara. Fyrir bragðið hefur hún mátt þola mikið útlitsníð (e. body shaming) og í framhaldi af því gerst ötull talsmaður frelsis og fjölbreytileika hvað útlit fólks varðar.

Fjórir af fimm fljótustu körlum sögunnar

Ekki má skilja upptalninguna hér að framan sem svo að karlahlaupið í London verði einungis skipað hægfara meðalmönnum. Þvert á móti er karlaflokkurinn sögulegur, m.a. vegna þess að þar mætast í fyrsta sinn tveir hlauparar (af þremur) sem hlaupið hafa maraþon undir 2:02 klst., þ.e.a.s. goðsögnin Kenenisa Bekele (f. 1982) sem er af mörgum talinn besti langhlaupari sögunnar og á best 2:01:41 klst. frá því í Berlín 2019 – og Kelvin Kiptum (f. 1999) sem vann ótrúlegar sigur í Valencia maraþoninu í desember sl. á 2:01:53 klst., í sínu fyrsta maraþonhlaupi. Þarna vantar bara heimsmethafann Eliud Kipchoge, sem valdi frekar að spreyta sig á Boston maraþoninu nýliðinn mánudag, þar sem hann náði „aðeins“ 6. sæti. Svo verða Birhanu Legese (f. 1994) og Mosinet Geremuw (f. 1992) þarna líka, en þeir eru í 4. og 5. sæti á maraþonafrekaskrá heimsins frá upphafi (2:02:48 og 2:02:55 klst). Ekki má heldur gleyma sjálfum Sir Mo Farah (f. 1983), en þetta verður líklega síðasta tilraun hans til að komast á götuhlaupatoppinn. Hann hefur hlaupið í það minnsta fimm maraþon, þar af þrjú í London, á breska metið (2:05:11 klst. sem var um tíma Evrópumet) og hefur unnið flest það sem hægt er að vinna. En hann er samt „bara“ í 96. sæti á maraþonafrekaskránni. Um allt þetta væri hægt að skrifa langan pistil, ekki síst um möguleika Kelvin Kiptum, en líka um það dásamlega einkenni maraþonhlaupa að þar geta ólíkar kynslóðir keppt um sigur á jafnréttisgrundvelli. Í því sambandi má m.a. minna á að Kenenisa Bekele var byrjaður að keppa á alþjóðlegum mótum áður en Kelvin Kiptum fæddist!

Kenenisa Bekele
Kenenisa Bekele
Lokaorð

Ég ætla sem sagt að spá Yalemzerf Yehualaw sigri á sunnudaginn. Og ég er líka verulega spenntur að fylgjast með Kelvin Kiptum. En mig langar samt aðallega að sjá Kenenisa Bekele koma fyrstan í mark.

Heimildir og lesefni (m.a.):
  1. BBC Sport (2023): London Marathon 2023: Double Olympic champion Sifan Hassan ready to 'step into the unknown'. BBC, 2. feb. 2023. https://www.bbc.com/sport/athletics/64489737.
  2. Eilish McColgan (2023): Instagramsíða. https://www.instagram.com/eilishmccolgan.
  3. Evelyn Watta (2023): London Marathon 2023: Olympic champions Peres Jepchirchir and Sifan Hassan confirmed in ‘greatest ever' women's field. Olympics, 2. feb. 2023. https://olympics.com/en/news/london-marathon-2023-jepchirchir-hassan-list.
  4. Harry Latham-Coyle (2023): London Marathon 2023: Route, timings and who is racing? Independent, 18. apríl 2023. https://www.independent.co.uk/sport/general/athletics/london-marathon-2023-route-times-course-b2321065.html.
  5. Lindsays (2023): Eilish remains resilient after success at the Berlin Half Marathon. https://www.lindsays.co.uk/news-and-insights/news/eilish-remains-resilient-after-success-at-the-berlin-half-marathon.
  6. Sean McAlister (2023): Sifan Hassan’s 2023 London Marathon challenge: “I’m going to finish the distance or the distance is going to finish me”. Olympics, 18. apríl 2023. https://olympics.com/en/news/sifan-hassan-2023-london-marathon-challenge.
  7. World Athletics (2023): Athletes. https://worldathletics.org/athletes-home.
  8. World Athletics (2023): All Time Top Lists. https://worldathletics.org/records/all-time-toplists.
  9. Wikipedia o.m.fl.