Hausmynd2018-RM2017
Squeezy Sport Nutrition
Pistlar/Vi­t÷l
Vi­t÷l
Yfirheyrslur
Pistlar Stefßns
Hlaupasumari­ mitt
S÷gur ˙r hlaupum
Frßsagnir hlaupara
Hugrenningar
Pistlar Sigur­ar P.
Frß umsjˇnarmanni
Leit
┴hugavert
Hlaupadagskrß 2020
Skrßningar Ý hlaup
Panta prˇgram
100km hlauparar
FÚlag mara■onhl.
HvÝtt bil 10 ß hŠ­
HvÝtt bil 10 ß hŠ­ - 3
Ăfingadagbˇk - 115x79
HvÝtt bil 5 ß hŠ­ - 1
hlaup.is ß Facebook
HvÝtt bil 5 ß hŠ­ - 3
English
HvÝtt bil 10 ß hŠ­ - 2
Póstur torfi@hlaup.is
Pistlar/Vi­t÷l  >  Yfirheyrslur
3.9.2015
Yfirheyrsla: Sigr˙n Erlendsdˇttir ˙r Laugaskokki


Laugaveginum rúllað upp með bros á vör í þetta skiptið.

Sigrún Erlendsdóttir hefur marga fjöruna sopið þegar kemur að hlaupum, prófað mörg hlaup og hlaupið á flottum tímum. En þessi lauflétti Garðbæingur er í Yfirheyrslunni þessa vikuna. Sigrún vill meina að hún sé eins og góð dísilvél þegar kemur að hlaupunum, lengi í gang en fer ansi langt á lítranum.

Hlaup.is bendir lesendum sérstaklega á ævintýralega frásögn Sigrúnar af Laugavegshlaupi sínu árið 2012 sem er að finna í Yfirheyrslunni.

Fullt nafn: Sigrún Erlendsdóttir.

Aldur: 42 ára.

Heimabær: Garðabær.

Fjölskylda: Maðurinn minn, Sigurjón og tvær flottar stelpur.

Skokkhópur: Laugaskokk lengst af og Hlaupahópur FI-skokk í vinnunni.

Hvenær byrjaðir þú að hlaupa? Byrjaði að hlaupa árið 2005 en fór svo að hlaupa fyrir alvöru í janúar 2006 þegar nokkrir villingar ákváðu að fara í New York maraþon það árið. Mjög góð ákvörðun.  

Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur? Hálfmaraþon.

Hvar er skemmtilegast að hlaupa? Mosó,  svo fallegar hlaupaleiðir þar.

Hvenær sólarhrings er best að hlaupa? Á virkum dögum finnst mér best að hlaupa í hádeginu eða eftir vinnu þar sem ég verð seint kallaður morgunhani. En laugardagarnir eru samt alltaf uppáhalds hlaupadagarnir. Ætli það séu ekki löngu æfingarnar sem heilla.

Besti hlaupafélaginn? Ég á nokkra. Sakna einna mest Völu (Hólmfríðar Völu) sem tók uppá því að flytja vestur á Ísafjörð. Ég var í mínu allra besta formi þegar hún bjó enn í bænum og barði mig áfram.  Svo eru það vinkonur mínar í Glennunum. En við hlaupum alltof sjaldan saman núorðið þar sem annaðhvort ólétta, barnafjöldi og annað í lífinu gerir það að verkum að erfitt er að safna hópnum saman öllum í einu. Svo er síamstvíburinn minn hún Sigga Bryndís, við reyndar skiptumst á að vera meiddar. Þá hlaupum við minna saman en hjólum þeim mun meira.

Uppáhalds hlaupafatnaður?  Ég á nú fatnað frá hinum ýmsum merkjum en  Craft hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér. Ronhill hefur reyndar verið að koma sterkt inn að mínu mati. Sérstaklega hvað varðar praktík.


Sigrún að hlaupa Þrístrending í einu af fjallahlaupum Stefáns Gísla.

Hvernig hlaupaskó áttu? Ég á nokkrar týpur af Brooks . Nýjustu utanvega eru Saucony - þeir eru æði.

Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Fyrir utan hlaupaföt og skó þá eru góðir hlaupafélagar alltaf ómissandi. Sér í lagi þeir sem læða nokkrum fimmaurum inn á milli.

Uppáhaldshlaup innan- og utanlands? Þessi er bæði erfið og auðveld. Erlendis finnst mér Boston maraþonið langskemmtilegasta hlaupið af þeim sem ég hef farið í. Borgin iðar öll af hlaupurum og viðhengjum í aðdraganda hlaups. Það fer ekki framhjá neinum að þessi atburður er í uppsiglingu. Hef farið í nokkur maraþon erlendis og Boston er drottningin.

Hér heima eru svo mörg hlaup sem eru skemmtileg. Laugavegurinn er skemmtilegt hlaup. Haust, - og Vormaraþon hjá FM eru frábær. Snæfellsjökulshlaupið er æðislegt hlaup, þar finnst mér frábærlega staðið að öllu og trakteringar í marki til fyrirmyndar. Einhverra hluta vegna hef ég aldrei hlaupið Jökulsárhlaupið en í mörg ár hef ég verið á kantinum og með einhverjum sem er að hlaupa. Ætli ég skelli mér ekki í það á næsta ári og taki jafnvel Landvætt í leiðinni. Nú er allavega komin pressa.....

Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum? Garmin og aftur Garmin.

Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í? Auðvitað dreymir mig um að vera sjúklega góð, í rosaformi, vera mikið ofur (hvað sem það nú þýðir) og fara eitthvað rosalega langt utanvegahlaup. En ég held í alvöru að það væri skemmtilegra að við Glennur myndum ná að hlaupa eitt maraþon allar saman. 


"Glennurnar" eftir Bostonmaraþonið 2008.

Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninn fyrir keppnishlaup? Svo sem engin sérstök hefð þar en hollur og góður matur kvöldið (reyndar í nokkra daga í aðdragandanum) fyrir hlaup. Svo annaðhvort hafragrautur eða ristað brauð um morguninn. Te fylgir alltaf með.

Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Aldrei utandyra en ef ég tek spretti á brettinu þá er tónlistin ómissandi. Ég er nokkurskonar alæta á tónlist.

Uppáhaldsorkudrykkur? Ég hef drukkið mikið af High5 og það komið mér ágætlega langt.

Besti matur eftir keppnishlaup? Gló er alltaf best.

Hvernig slakar þú á? Þegar ég strauja og hlusta á góða tónlist. Straufíkill!  

Mesta afrek á hlaupabrautinni? Fyrir utan bestu tímana mína þá myndi ég nú segja þegar ég komst lifandi frá Laugavegshlaupinu árið 2012.

Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa? Vorin, þegar dag fer að lengja og gróðurinn að springa út. Það fyllir mig ótrúlegri gleði. Um miðjan febrúar  getur maður farið að gleðjast eftir veturinn á ný hvað birtu varðar.

Bestu tímar í 5 km/10 Km/hálfmaraþoni/maraþoni? 21:20 í 5 km, 43:20 í 10 km, 1:36 í hálfu og 3:36 í maraþoni. 6.09 á Laugaveginum.

Hleypur þú eftir æfingaáætlun? Já, ef ég er að æfa sérstaklega fyrir maraþon eða Laugaveginn þá nota ég prógram sem er algerlega nauðsynlegt. Hef ekki hlaupið eftir 10 km- eða hálfmaraþons prógrömmum. Fer kannski að gera það núna til að koma mér í aftur í hlaupaform.

Hvar hleypur þú helst? Flókin spurning og henni fylgir flókið svar. Yfir vetrartímann á ég það til að læðast á brettið ef veður er þannig. Aðallega út af færðinni, þoli bara ekki að hlaupa í hálku. Finnst þá fínt að fara á brettið í stuttum og hlýrabol.  En á sumrin finnst mér utanvegahlaupin langskemmtilegust. Mosó er þá uppáhalds staðurinn til að hlaupa. Þar eru svo margar fallegar leiðir til að fara og njóta. Svínaskarðið og að hlaupa með Leirvogsánni eru leiðir sem ég held að alltof fáir fari. Ef ég finn ár til að hlaupa út í þá er ég fyrst þangað. Svo er Skammidalurinn í miklu uppáhaldi.

Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu? Dísill (er svo lengi í gang). Er betri í lengri vegalengdum en stuttum.


Þrjár góðar á ferðinni í Þrístrendingi.

Hvað hleypur þú mikið í hverri viku? Akkurat núna er ég að fara af stað aftur eftir meiðsli. Hleyp fjórum sinnum í viku, á milli 60-80 km, fer svo sem eftir því hvað er framundan. Styttra á virkum dögum (sprettir, tempó og rólegt) en langt á laugardögum.

Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup? Ég fékk hjólabakteríu eins og svo margir (meiddir) hlauparar. Hjólin eru líka gott mótvægi við hlaupin. Mætti vera duglegri að fara í jóga og að styrkja mig. Það stendur alltaf til bóta.

Eru sprettir eða interval æfingar í þinni æfingaáætlun? Alltaf - það eru að mínu mati skemmtilegustu æfingarnar. Oft á tíðum erfiðar en þá líður manni líka best eftirá.

Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar kemur að hlaupum? Að vera í hlaupaformi er ótrúlega gott. Þarf ekki endilega að vera hratt form, en að geta hlaupið. Það finnst mér vera forréttindi. Mig langar alltaf að bæta bæði Laugavegstímann minn og fara undir sex tímana (Vala, komdu heim!) og bæta maraþontímann, fara undir 3:30. Annars er ég orðin ansi slök í þessum efnum og finnst bara almennt gaman að fara út að leika. Maður þarf líka að geta notið þess að fara í hlaup án þess að tíminn skipti öllu. Annars erum við vinkonurnar helst til of kappsamar og eigum erfitt með það. Það getur engin þrætt fyrir þá staðreynd. 

Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum? Vinkonur mínar eru mínar helstu fyrirmyndir myndi ég segja. Títtnefnd Vala er ótrúlega flott íþróttamanneskja og er ekki bara góð í hlaupum. Hún er rosaleg á gönguskíðum. Agga (Guðbjörg Margrét) á fimm börn og hleypur hraðar með hverju barni sem hún eignast. Toppið það! Hefur unnið Laugaveginn og farið hann oftast af okkur vinkonum. Svava Rán, nýkrýndur Íslandsmeistari í maraþoni. Hún hleypur svo hratt að ég á erfitt starf fyrir höndum ef ég á að geta farið að hlaupa með henni aftur.

Skráir þú niður æfingar þínar, ef svo er með hvaða hætti? Notaði alltaf Hlaup.is en eftir að ég fór að hjóla þá skrái ég allt á Strava. Ef það er ekki á Strava þá gerðist það ekki.

Skoðar þú hlaup.is reglulega? Já, mjög reglulega.

Ertu með hugmyndir til að bæta hlaup.is? Mér finnst síðan alltaf vera að taka stöðugum framförum. Yfirheyrslan er flott viðbót.


Sigrún (önnur frá vinstri) og vinkonur eftir 7 tinda í Mosó.

Áttu einhverja skemmtilega sögu sem tengist hlaupunum? Besta (og versta) sagan er líklega hið fáránlega „dett „ á Laugaveginum árið 2012. Var nýfarin yfir Hrafntinnusker þegar mér tekst með einhverjum ótrúlegum hætti að renna til og falla beint á magann. Einhvern veginn skauta ég samt í fallinu til hliðar og renn í áttina niður að gili. Það sem stöðvaði mig var líklega drykkjarbeltið sem festist í grjóti sem ég hafði runnið yfir. Eg hékk á lyginni með fætur dinglandi niður á stóra steina. Það var fullt af fólki í kringum mig sem betur fer. Ég öskra af lífsins sálarkröftum og einhverjir fara niður í gilið og byrja að reyna að ýta mér upp og að ofan var mynduð mennsk keðja til að draga mig upp. Ef ég hefði haldið áfram að renna niður hefði getað farið mjög illa. Ég var illa skröpuð á lærum og hnjám. Handleggirnir voru eitt svöðusár og ég í miklu sjokki. En naglinn ég, stóð upp, tók mestu mölina (sandinn) úr sárunum og fann að ég var óbrotin. Það var ekkert annað í stöðunni en að halda áfram. Ekki gat ég sest niður og farið að grenja! Þarna voru 38 km eftir í mark. Þegar ég kom niður í Álftavatn stoppaði ég, reyndi að drekka, skolaði mesta blóðið og fékk plástra. Fann hvað mér var rosalega flökurt. Gat lítið sem ekkert drukkið og alls ekki tekið gel.

Áfram fór ég áleiðis í Emstrur. Maður minn hvað mér fannst sandarnir vera langir. Þeir höfðu lengst frá því síðast. Ég var viss um það. Mér leið svo hræðilega illa og var svo flökurt að ég kom engu niður á leiðinni. Vildi ekki drekka svo ég myndi ekki kasta upp. Stoppaði í Emstrum og reyndi að koma smá kóki niður. Það var erfitt en nokkrir urðu soparnir. Þarna var ég samt farin að hafa áhyggjur af því að það hefði frést í markið til fjölskyldunnar að ég hefði dottið. Ég vildi alls ekki að fólkið mitt hefði áhyggjur af mér. Ætlaði að reyna að hringja í þau úr Emstrum en ég gat bara með engu móti talað. Átti fullt í fangi með að vera bara ég og reyna að sansa mig. Sat þarna í kringum 30 mínútur og þráaðist við að leyfa einni sem starfaði á drykkjarstöðinni að taka sólgleraugun af mér, ég var viss um að hún myndi stoppa mig ef hún sæi alveg framan í mig.

Áfram skrölti ég. Þegar ég var nýkomin yfir Emstrur þá svimaði mig hræðilega og fann hvar það var hreinlega að líða yfir mig. Það fór nú alveg um mig þarna og ég varð hálf hrædd. En þá kom sannkallaður bjargvættur á svæðið; Höskuldur Kristvinsson læknir og langhlaupari. Hann þekkti ég áður þar sem við unnum saman og hann var að hissa að sjá mig þarna, þar sem undir venjulegum kringumstæðum ætti ég að vera komin í mark. Þegar hann sá ástandið á mér þá ákvað hann að við færum bara saman í mark. Hann byrjaði að þræla í mig orkugeli í gúmmiformi frá GU. Það var skárra að fá það heldur en leðjuna. Það var erfitt að koma þessu niður en ég fann að ég varð ef ég ætlaði í mark á lífi. Svona höktum við saman og gúmmíið át ég.

Mér leið örlítið betur og fann hvernig ég fékk smá orku til að klára þetta. Þegar við komum að Kápunni þá sagði ég honum að ég myndi klára þetta og leyfði honum að fara. Fékk góða hjálp upp Kápuna og svo kom einn hlaupafélagi og hélt mér í félagsskap eftir Þröngánna alla leið í mark. Fór beint í sjúkratjaldið og fékk næringu í æð. Þar kom sjokkið alveg með trukki. Skalf eins og hrísla og réð ekki neitt við neitt. Ég var samt í minna sjokki en ein sem varð vitni að fallinu og fór að gráta þegar við hittumst í markinu. Hún átti erfiðara en ég. Að fara orkulaus 38 kílómetra er ekkert sem ég mæli með. En að klára þetta í því ástandi sem ég var í, er afrek út af fyrir sig og enn í dag skil ég ekki hvernig ég gerði það. En ætli skapið hafi ekki eitthvað með það að segja! Hljómar allt mjög dramatískt en svona var þetta.

 

Til baka
 
 
Athugasemdir
 
 
Settu inn athugasemd:

 
Sportv÷rur 2XU Jan 2020
HvÝtt bil 5 ß hŠ­ - 3
 
© Allur rÚttur ßskilinn. Birting ß ■essu efni ß ÷­rum mi­lum er ˇleyfileg nema me­ leyfi hlaup.is