Hausmynd2018-RM2017
Squeezy Sport Nutrition
Pistlar/Vi­t÷l
Vi­t÷l
Yfirheyrslur
Pistlar Stefßns
Hlaupasumari­ mitt
S÷gur ˙r hlaupum
Frßsagnir hlaupara
Hugrenningar
Pistlar Sigur­ar P.
Frß umsjˇnarmanni
Leit
┴hugavert
Hlaupadagskrß 2020
Skrßningar Ý hlaup
Panta prˇgram
100km hlauparar
FÚlag mara■onhl.
HvÝtt bil 10 ß hŠ­
HvÝtt bil 10 ß hŠ­ - 3
Ăfingadagbˇk - 115x79
HvÝtt bil 5 ß hŠ­ - 1
hlaup.is ß Facebook
HvÝtt bil 5 ß hŠ­ - 3
English
HvÝtt bil 10 ß hŠ­ - 2
Póstur torfi@hlaup.is
Pistlar/Vi­t÷l  >  S÷gur ˙r hlaupum
17.3.2008
Rˇmarmara■on 2008 - Stefßn GÝslason

Í dag hljóp ég maraþon í Róm, ásamt með Ingimundi Grétarssyni. Í þessum pistli ætla ég að segja frá þessari bráðskemmtilegu upplifun.

Aðdragandinn
Ég held ég fjölyrði ekkert um aðdraganda hlaupsins, enda hef ég skrifað eitthvað um hann áður. Við skráðum okkur í hlaupið í ágúst á síðasta ári, og frá áramótum höfum við stundað fremur markvissar æfingar við fremur erfiðar aðstæður, oftast á keðjum í snjó og hálku. En allt gekk það vonum framar, nema hvað hraðinn í æfingahlaupunum varð eðlilega ívið minni en æskilegt má telja. Að morgni fimmtudagsins 13. mars lögðum við svo í hann til Rómar, ásamt með lífsförunaut mínum síðustu 30 árin, Björk Jóhannsdóttur. Í Róm slóst einnig Auður H Ingólfsdóttir, fyrrverandi vinnufélagi minn í hópinn, kominn beina leið frá Skopje í Makedóníu, þar sem hún vinnur fyrir UNIFEM. Föstudagurinn og laugardagurinn voru nýttir í andlegan og menningarlegan undirbúning hlaupsins, m.a. með heimsókn í páfagarð. Í Péturskirkjunni var verið að vígja nunnur, en Benedikt XVI var hvergi sjáanlegur.

Dagurinn í dag - fyrir hlaup
Hlaupið byrjaði kl. 9 í morgun. Við Ingimundur vorum mættir í morgunmat á hótelinu kl. 7.00. Ég fékk mér tvær jógúrtdollur, helling af múslíi, glas af appelsínusafa og tebolla. Kvöldið áður hafði ég borðað hráskinku, melónu, stóran bita af kjúklingi og ferska ávexti með svolitlun ís. Pasta hef ég látið ósnert að mestu síðustu daga, enda finnst mér slíkt fæði trufla meltinguna og draga úr mér kraft frekar en hitt, hvað sem öllu tali um kolvetnahleðslu líður. Ég tíunda þetta allt hér, því að mataræði fyrir hlaup og í hlaupum er oft til umræðu meðal þeirra sem stunda þessa iðju. Meira um það síðar.

Eftir morgunmatinn tókum við leigubíl niður í miðbæ, eða öllu heldur að útjaðri miðbæjarins. Miðbærinn var allur lokaður fyrir bílaumferð í tilefni dagsins, enda eins gott eins og bílakraðakið er hérna í Róm, með tilheyrandi mengun. Þarna sáum við strax fáeina hlaupara, sem allir stefndu í sömu átt, og auðvitað létum við berast með straumnum. Úr þessu varð alllöng gönguferð sem endaði á vandlega girtu svæði sunnan við Colosseum. Þarna var sem sagt undirbúningssvæði fyrir hlauparana, þar sem m.a. stóðu svo sem 20 flutningabílar, hver um sig rækilega merktur með rásnúmerum á tilteknu bili. Í þessa bíla gat maður skilað utanyfirfötum og öðrum farangri í þar til gerðum plastpokum, merktum með þar til gerðum límmiðum með númeri viðkomandi hlaupara, en þetta var hvort tveggja hluti af keppnisgögnum, sem öllum var gert að nálgast síðustu tvo eða þrjá dagana fyrir hlaup. Þarna var líka gríðarlegur fjöldi kamra, sem dugðu þó hvergi nærri til, enda mannfjöldinn á svæðinu eitthvað um 10 þúsund. Því mynduðust langar raðir hlaupara sem köstuðu af sér vatni utan í nærliggjandi múra.

Eftir nokkra dvöl á undirbúningssvæðinu fór að koma hreyfing á hlauparahópinn, ekki ósvipað því sem gerist með kindur þegar réttað er á haustin. Enginn virtist svo sem vita alveg hvert ferðinni væri heitið, en fyrr en varði hafði safnið skipt sér í þrjár ákaflega aflangar girðingar eða dilka, sem merktar voru B, C og D og viðeigandi rásnúmerum. Rásnúmerum var nefnilega úthlutað eftir fyrri árangri, sem tiltekinn var á upphaflega skráningarblaðinu. Við Ingimundur vorum í C-dilknum fyrir hlaupara með rásnúmer 4001-8000. Fyrr en varði var hópurinn tekinn að þéttast nokkru fyrir aftan rásmarkið á Via dei Fori Imperiali, rétt norðvestan við Colosseum. Næst rásmarkinu voru mestu afreksmennirnir, þá B-hópurinn og svo koll af kolli.

Veðrið og klæðaburðurinn
Veðrið í Róm í dag var sérlega hagstætt til hlaupa; sunnan kaldi, þurrt, sólarlaust að mestu og líklega um 14 stiga hiti. Venjulegur Borgnesingur getur varla hugsað sér það betra. Jafnvel vindurinn var kærkominn. Það kom því ekkert annað til álita en að hlaupa í stuttbuxum og hlírabol, og sólarvörnin var ekki spöruð, því að sólböð hafa verið með fátíðasta móti í vetur.

Hlaupið sjálft
Fyrr en varði var klukkan orðin 9 og hlaupararnir þumlunguðust af stað. Mér sýndust um það bil óendanlega margir hlauparar vera fyrir framan okkur og sami fjöldi fyrir aftan. Það leið því drykklöng stund áður en við vorum komnir á tímatökumottuna í rásmarkinu, nánar tiltekið 1 mínúta og 22 sekúndur. Fyrsti kílómetrinn var líka fremur hægur, enda nokkur þröng á þingi. Reyndar var maður aldrei einn í þessu hlaupi, heldur í misþéttum hópi hlaupara alla leið.

Mér leið vel á fyrstu kílómetrunum og var nokkuð viss um að ég gæti lokið hlaupinu á 3:40 klst. eða þar um bil. Var reyndar ákveðinn í að vera sáttur við allt undir 3:51, enda gaf hraðinn á æfingum vetrarins ekki tilefni til að búast við mikið meiru. Einhvers staðar í huganum leyndist þó draumur um að bæta besta tímann minn til þessa, 3:35:56 klst. frá því í Reykjavíkurmaraþoninu 1996. En ég gætti þess vel að láta engar slíkar hugsanir eða útreikninga ná tökum á mér, og hugsaði þess í stað um hvílík forréttindi það væru að vera kominn alla þessa leið, eftir að hafa stefnt að því í marga mánuði, í þessu frábæra veður og innan um allt þetta fólk. Það var líka ýmislegt gert til að gleðja og stytta stundir. Til dæmis spilaði stór lúðrasveit stuttu eftir að lagt var af stað.

Við Ingimundur fylgdumst að fyrstu kílómetrana. Við 5 kílómetra markið sýndi klukkan 26:22 mín, sem mér þótti bara býsna gott. Samkvæmt upplýsingum í gagnagrunni mótshaldara var ég þarna í 4005. sæti af þeim sem síðan luku hlaupinu. Það voru víst 10.511 manns. Skömmu síðar hlupum við yfir ána Tíber í fyrsta sinn, en annars bar svo sem fátt til tíðinda að 10 km markinu. Þar var tíminn 51:31 mín. og ég búinn að vinna mig upp í 3639. sæti. Ingimundur hafði aðeins gefið eftir og var 8 sek seinni yfir línuna.

Yfirleitt var hlaupið á malbiki, en á nokkrum köflum í miðbænum var hlaupið á gömlum hellusteinum. Það fannst mér frekar óþægilegt, því að þeir voru býsna harðir og sums staðar í ósléttara lagi. Í þokkabót urðu þeir mjög sleipir í kringum drykkjarstöðvar og svampastöðvar, þar sem miklu var sullað niður af vatni. Drykkjarstöðvar voru annars á 5 km fresti, og 2,5 km síðar var hægt að fá blauta svampa til að kæla sig og bleyta.

Við 10 km markið var aftur hlaupið austur yfir Tíber og áfram upp með ánni þeim megin. Allt gekk eins og í sögu, ég fann lítið fyrir þreytu og jók heldur hraðann ef eitthvað var. Við 15 km markið var tíminn 1:16:17 klst. og enn hafði ég færst framar í röðina, kominn í 3475. sæti. Ingimund hafði ég ekkert séð síðustu 5 kílómetrana, en hann var þó bara 15 sekúndum á eftir mér þegar hér var komið sögu. Til marks um mannmergðina má nefna að á þessu 15 sekúndna bili voru um það bil 65 hlauparar.

Eftir 15 km markið fór ég aðeins að finna fyrir þreytu og taldi næsta víst að nú færi að hægjast á mér. Ég var einmitt að hugsa um þetta þegar ég hljóp yfir Tíber í 3. sinn, nú til vesturs yfir Cavour-brúna skammt frá Vatíkaninu. Mitt í þessum hugsunum kom ég auga á ljóshærða konu meðal áhorfenda með íslenskan og kanadískan fána í hendinni. Bara það að sjá íslenska fánann gaf mér nýjan kraft og auðveldaði mér næsta áfanga.

Þegar hlaupið var hálfnað var ég enn búinn að bæta stöðu mína, kominn í 3325. sæti með tímann 1:46:44 klst. Þóttist muna að það væri talsvert lakari tími en þegar ég var hálfnaður með fyrsta maraþonhlaupið mitt 1996, en var samt nokkuð viss um að geta haldið mig nálægt 3:40 klst. Auk þess var ég allan tímann ákveðinn í að mér væri svo sem alveg sama um tímann, þetta væri fyrst og fremst stórkostleg upplifun og ómæld gleði. Þessu viðhorfi tókst mér að halda allt til enda, enda finnst mér að öll hlaup eigi að vera skemmtiskokk.

Rétt fyrir 25 km markið var hlaupið yfir Tíber í síðasta sinn. Eftir 25 km sýndi klukkan 2:05:59 klst, sem þýddi að enn var ekkert farið að hægjast á mér. Þarna reiknaði ég út að ef ég næði að hlaupa 40 km á 3:24 eða skemmri tíma, myndi ég bæta mig í hlaupinu nánast hvað sem á gengi í lokin. Ég ákvað líka að ég væri að hlaupa þetta hlaup sem sigurvegari. Eitthvað fundust mér kílómetrarnir samt vera farnir að lengjast. Fyrr en varði voru þó 30 slíkir að baki, tíminn kominn í 2:31:05 og ég kominn upp í 2882. sæti. Ég hljóp náttúrulega með GPS-garminn minn eins og venjulega, en þegar hér var komið sögu var komið upp mikið misræmi í vegalengdarmælingunni, sérstaklega eftir að gervihnattasambandið rofnaði þegar hlaupið var í gegnum veggöng. Eftir það notaði ég hann bara sem skeiðklukku, en lét skipuleggjendur hlaupsins algjörlega um kílómetratalninguna, enda allar merkingar framúrskarandi greinargóðar.

Nú fórum við að nálgast miðbæinn og áhorfendum fjölgaði að sama skapi. Glaðlegir og hvetjandi áhorfendur skipta ótrúlega miklu máli, sérstaklega þegar fæturnir fara að þyngjast. Einhvers staðar á næstu kílómetrum sá ég líka aðra konu með íslenskan fána og fékk aftur svolítinn aukakraft.

Það er auðvitað frábært að fá tækifæri til að kynnast borg á borð við Róm í svona hlaupi. Hins vegar verð ég að viðurkenna að á síðustu 10 kílómetrunum fór ýmislegt fram hjá mér sem fyrir augu bar. Þetta sé ég vel þegar ég skoða kort af borginni eftir á. Við 35 kílómetra markið var ég t.d. nýbúinn að hlaupa fram hjá Piazza Navona. Þarna var ég í 2652. sæti með tímann 2:56:05 klst. Eftir þetta lá leiðin upp Via del Corso, sem með góðum vilja er hægt að þýða sem Hlauparagötu. Þar var krökkt af fólki og stemmingin aldeilis frábær. Við Piazza del Popolo voru búnir 37,5 km. Klukkan sýndi 3:06:51 klst. og ég var kominn í sæti nr. 2535. Vissulega var þreyta farin að gera vart við sig - og líka dálítil óþægindi ofan á tá, sem skórnir voru að angra. En enn var gleðin til staðar. Og einhvers staðar á 38. eða 39. kílómetranum kom ég auga á Björk og Auði á hliðarlínunni. Það var eiginlega hápunktur hlaupsins og nóg til þess að eyða allri þreytu í nokkrar mínútur. Sjálfsagt myndi eitthvað hægjast á mér, en 40 kílómetrarnir hlytu að nást undir 3:24 klst. og þar með hlyti ég að ná mínum besta tíma. Þetta gekk eftir. Við 40 km strikið sýndi klukkan 3:21:58, eða 2 mín. betri tíma en ég hafði ákveðið að vonast eftir. Og til að halda röðinni enn til haga, þá var ég kominn upp í 2403. sæti. Þarna var gleðin algjörlega komin til að vera - og brosið fór ekki af það sem eftir var. Þegar 40 km eru að baki er óþarfi að hugsa meira um þreytta fætur. Síðasti hluti hlaupsins var niður langa aflíðandi brekku hálfhring í kringum Colosseum - og svo var þetta bara búið! Tíminn var 3:33:00 klst. og af þessum 10.511 hlaupurum var ég í 2256. sæti, búinn að fara fram úr u.þ.b. 1.750 manns frá því við 5 kílómetra markið.

Þegar í mark var komið tók við hefðbundinn tími við að jafna sig, ná sér í hressingu, komast í föt, gleðjast með sjálfum sér yfir árangrinum og þar fram eftir götunum. Líkamlegt ástand mitt var gott, mun betra en eftir fyrri maraþonhlaup. Ég gat meira að segja bæði sest og staðið upp án vandkvæða. Og gleðin var enn á sínum stað. Svo fór ég auðvitað að huga að Ingimundi. Hann skilaði sér skömmu síðar, í 3137. sæti á 2:42:54 klst.

Fæðan
Fyrr í þessum pistli tíundaði ég matartekjuna fyrir hlaup. Það sem maður lætur ofan í sig á meðan á hlaupinu stendur skiptir auðvitað ekki síður miklu máli. Ég var löngu ákveðinn í að nota eingöngu orkugel og vatn í þetta sinn. Helst vil ég nefnilega geta stjórnað þessum málum sjálfur eftir fyrirfram gerðri áætlun. Það borgar sig ekki að hugsa um svona hluti í hlaupinu sjálfu, því að þá vill dómgreindin stundum bregðast. Ég er alveg hættur að drekka orkudrykki í svona hlaupum. Hér gildir að ég held það sama og víðar, að það borgar sig ekkert að vera rugla með tegundir. Reyndar er Gatorade kannski í lagi, en Powerade er mér meinilla við þar sem það inniheldur sætuefni sem mér finnst bara fylla mann óþægindum og andleysi. Með því að taka sjálfur með sér orkugel, sem er jú vel að merkja í fyrirfram ákveðinni skammtastærð, getur maður frekar haft yfirsýn yfir næringarástandið. Föst fæða er í banni hjá mér á hlaupum.

Innihald fyrsta gelpokans gleypti ég 10 mín. fyrir hlaupið. Sá innihélt reyndar svolítið af koffeini. Síðan tók ég einn gelpoka á nákvæmlega 7 km fresti allt hlaupið, með þeirri undantekningu að ég tók einn slíkan eftir 20 km en ekki 21 eins og ég ætlaði. Þetta gerði ég til að spara vatn. Það þarf nefnilega tvo gúlsopa af vatni með hverjum gelpoka. Ég tók með mér tvo litla vatnsbrúsa í drykkjarbelti til að drekka með gelinu og dreypa á á milli drykkjarstöðva, en mjög var gengið á þær birgðir þegar hlaupið var hálfnað. Þess vegna var hentugt að samræma gelát viðkomu á drykkjarstöð. Gelpokinn sem ég tók eftir 28 km innihélt aftur koffein og síðasta pokann tók ég eftir 35 km. Ég fann auðvitað fyrir þreytu síðustu kílómetrana, en varð aldrei orkulaus og stífur, hljóp sem sagt aldrei á neinn vegg, sem m.a. sést á því að ég kláraði seinni helming hlaupsins á 28 sek. betri tíma en þann fyrri (1:46:44/1:46:16).

Einhvers staðar sá ég ráðlagt að taka gelpoka á hálftíma fresti. Gerði það í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra, en var búinn að fá meira en nóg undir lokin. Af reynslu dagsins í dag held ég að þessi 7 km regla sé bara fín.

Andlega hliðin
Það er erfitt að hlaupa Maraþon. Hlaupið í dag undirstrikaði þó það sem ég vissi áður, að árangurinn ræðst ekki síður af hugarástandi en ýmsu öðru. Frásögnin af konunum með fánana og eiginkonu og vinkonu við brautina segja sitt um upplifun mína í þessu sambandi. Ég einsetti mér það líka að halda í gleðina eins lengi og stætt væri. Það tókst. Maður þarf aðeins að hafa hemil á hugsununum í svona hlaupi, því að þær geta bæði verið besti samherji manns og svarnasti andstæðingur. Mér tókst að sveigja þær til hlýðni í dag.

Úrslit hlaupsins
Úrslit þessa 14. Rómarmaraþons er hægt að finna á heimasíðu hlaupsins, www.maratonadiroma.it. Ég má samt til með að geta þess, að í hlaupinu í dag náðist besti tíminn sem nokkur kona hefur náð á ítalskri grundu. Þar var rússneski stórhlauparinn Galina Bogomolova á ferð, en hún vann kvennaflokkinn með yfirburðum á 2:22:53 klst. Galina er 12. besti maraþonhlaupari sögunnar og á reyndar aðeins betri tíma en þann sem hún náði í dag. Í karlaflokki unnu Kenýamenn sexfalt, auk þess að vera í 8., 10., 11., 12. og 13. sæti. Jonathan Yego Kiptoo vann á góðum endaspretti á 2:09:58 klst., 4 sek. á undan landa sínum Philip Kimutai Sanga. Af öðrum sérlega athyglisverðum úrslitum má nefna afrek Richards Whitehead, sem lauk hlaupinu á 3:39:00 klst. á gervifæti frá Össuri og bætti fyrri tíma sinn um 14 mínútur! Svo setti Svisslendingurinn Kerstin Metzler líka heimsmet í maraþonhlaupi afturábak á 4:42:39 klst. Okkur Ingimundi datt helst í hug þegar við sáum aðfarirnar hjá afturábakhlaupurunum, að líklega hefðu þeir ekki fattað að það væri miklu þægilegra að snúa sér hinsegin. En að hlaupa aftur á baka á 4:42 er náttúrulega ótrúlegt afrek. Lundúnabúinn Michael Ian Sharman gerði sér líka lítið fyrir og hljóp maraþonið á 2:52:57 klst., klæddur sem Elvis Presley. Mér skilst að það sé jafnvel heimsmet í þeim flokki. Loks má nefna að rúmlega 65 þúsund manns tóku þátt í 4 km skemmtiskokki í Róm í dag.

Lokaorð
Þetta er orðinn lengri pistinn en ætlað var - og þokkalega sjálfhverfur. Ef einhver nennir að lesa hann og finnur í honum eitthvert gagn eða gaman, þá er tilganginum náð. Síðasti dagurinn í þessu Rómarævintýri er að kveldi kominn.

 Stefán Gíslason

Til baka
 
 
Athugasemdir
 
 
Settu inn athugasemd:

 
Sportv÷rur 2XU Jan 2020
HvÝtt bil 5 ß hŠ­ - 3
 
© Allur rÚttur ßskilinn. Birting ß ■essu efni ß ÷­rum mi­lum er ˇleyfileg nema me­ leyfi hlaup.is